149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

skerðing bóta TR vegna búsetu erlendis.

[10:47]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir þessa góðu fyrirspurn. Við áttum einnig gott samtal, félagsmálaráðuneytið og ég sem félags- og barnamálaráðherra við velferðarnefnd í gær þar sem farið var yfir þetta mál. Ég held að það sé eiginlega þrískipt hvernig við þurfum að taka á þessu máli. Í fyrsta lagi eru eldri uppsöfnuð mál, eins og þingmaðurinn kom inn á, í öðru lagi breytt framkvæmd í dag, og í þriðja lagi þurfum við að velta því fyrir okkur hver lagalega staðan er og hvort eðlilegt sé að gera breytingar til framtíðar á því hvernig við högum þessum málum.

Eins og þingmaðurinn vitnaði til í máli sínu er Tryggingastofnun að fara yfir þetta mál og hefur verið í góðum samskiptum við okkur. Fulltrúar hennar hafa m.a. mætt á fundi velferðarnefndar og eru búnir að vera í góðum samskiptum við félagsmálaráðuneytið þar sem verið er að vinna að tímalínu, hvernig þessum málum verður háttað til framtíðar. Niðurstaða er ekki komin enda eru ekki enn komin lok janúar. Í framhaldi af því þegar niðurstaða liggur fyrir í þessu efni, og ég get upplýst að í því sambandi er hugsað um fjögur ár, þurfa að eiga sér stað fundir með félagsmálaráðuneytinu og Tryggingastofnun, annars vegar með fjármálaráðuneyti og hins vegar fjárlaganefnd, til þess að vinna áætlanir um hvernig hægt er að bregðast við til framtíðar.

Þetta mál, þ.e. framkvæmd Tryggingastofnunar, sem er mjög gamalt, hefur á öllum stigum verið staðfest af úrskurðarnefndum. Eftir álit umboðsmanns hefur verið ákveðin vinna í gangi. Henni er ekki lokið. Þegar henni verður lokið mun Tryggingastofnun gera grein fyrir því hvernig áætlunum um báða þessa þætti verður háttað, en það liggur ekki fyrir á þessari stundu, því miður.