149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

Brexit.

[10:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hv. þingmaður gerir að umtalsefni útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Ég held að mikilvægt sé að draga réttan lærdóm af því. Ég held að öllum þeim sé ljóst sem hér hafa talað í fullri alvöru um að gott væri fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið að þeir geta aldrei aftur notað þá röksemd, sem öllum var ljóst að var fráleit en var samt notuð, að það sé ekkert mál að ganga í Evrópusambandið af því að það er svo auðvelt að ganga úr því aftur ef mönnum líkar ekki dvölin. Ég geri ráð fyrir því að þeir aðilar sem eru í flokki sem var sérstaklega með Evrópusambandsflaggið á öllum borðum á landsfundi sínum muni aldrei segja neitt slíkt aftur. Ég held að við hljótum að geta treyst því. Er það ekki, virðulegi forseti? Það er ekki auðvelt að ganga úr Evrópusambandinu.

Varðandi tækifæri er það ekki bara sá sem hér stendur sem talaði um þetta. Ef hv. þingmaður flettir upp í viðtölum við formann og varaformann Viðreisnar sér hann að báðir töluðu um það, annar í þinginu og hinn í viðtölum við RÚV, að auðvitað væri tækifæri í því, sérstaklega í sjávarútvegi, ef Bretar fengju aftur það viðskiptafrelsi sitt sem þeir hafa ekki núna.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns kemur á óvart að við séum ekki búin að svara henni því að hv. þingmaður las ágætlega yfir þær fréttatilkynningar sem hafa komið fram. Ég skal kanna hvernig stendur á því. Það stendur ekki á okkur að svara þessum spurningum, bæði skriflega og með öðrum hætti, eins og hv. þingmaður fór yfir og las ágætlega í yfirlýsingu og fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.