149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðsla vegna ólöglegra skerðinga TR.

[11:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Búsetuskerðingar sem umboðsmaður Alþingis tók á í júní sl., fyrir rúmu hálfu ári, fjalla um að þarna er verið að skerða ekki bara fátækt fólk heldur þá fátækustu meðal fátækra á Íslandi. Þarna eru tugir manns undir sem gert er að lifa á minna en 80.000 kr. á mánuði. Þeir sem minnst fá, hef ég heyrt, fá 18.000 kr. á mánuði.

Hafa þessir einstaklingar tækifæri til að fá félagsbætur? Nei. Ef þeir eiga maka fá þeir ekki félagsbætur. Þeim er gert að vera á framfærslu makans.

Þessi gjörningur hefur staðið yfir í tíu ár, frá 1. maí 2009. Núna kemur ríkið og segir: Heyrðu, við ætlum bara að bæta fjórum árum við. Bara fjórum. Ætlar ríkið þá að segja: Jess! Okkur tókst að ná sex árum af þeim sem fátækastir eru hér á landi?

Við höfum borgað sanngirnisbætur vegna þess að brotið hefur verið á fötluðum einstaklingum og veiku fólki. Það er sanngirni í því að borga allt til baka.

Ég spyr ráðherra: Ætlar hann að sjá til þess?

Við skulum átta okkur á því að í þessum hópi eru einstaklingar sem voru ekki bara skertir ólöglega heldur voru þær litlu bætur sem þeir fengu notaðar til þess að skerða dánarbætur maka.

Ég spyr: Hversu langt getur þetta kerfi gengið í því að níðast á þeim sem verst standa í þessu samfélagi? Við hljótum að segja stopp hér og fara að breyta einhverju.

Ég spyr ráðherrann: Ætlar hann að sjá til þess að þessu verði breytt?