149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðsla vegna ólöglegra skerðinga TR.

[11:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Það er oft ofboðslega flókið að leiðrétta mál hjá öryrkjum en ofboðslega einfalt að taka af þeim réttindi þeirra.

Ég spyr: Er það pólitísk ákvörðun að borga bara fjögur ár aftur í tímann? Er það fjárhagsleg ákvörðun sem þingið getur þá komið að? Eða er hæstv. ráðherra ekki sammála mér um að okkur beri að sjá til þess að fólk sem lifir í algjörri fátækt og svelti eigi rétt sinn en ekki sé reynt að segja að erfitt sé fyrir Tryggingastofnun að reikna þetta út?

Tryggingastofnun reiknaði út hvernig fólk átti að fá þessar bætur. Til að reikna það út og fá borgað þurfti hún að hafa allar upplýsingar. Þær upplýsingar eru til staðar þannig að eini munurinn er að breyta prósentutölunni og gefa rétt. Stofnunin hefur allar upplýsingarnar. Að halda öðru fram er ekkert annað en útúrsnúningur til þess að tefja málið. Og henni ber skylda til að sjá um að gera þetta einn, tveir og þrír og hætta líka nú þegar þessum ólöglegu skerðingum.