149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:24]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Róttækni er algjörlega frábær, sérstaklega ef markmiðin eru góð. Það er rétt, ef við göngum út frá því að viðskipti séu skref í rétta átt, frjáls og aukin viðskipti milli landa — ég árétta það sem ég sagði áðan, að ég átta mig á því að verði Ísland eitt og sér með slíkar kröfur verður líklegast klippt á. En af því að þetta hangir allt saman á þennan hátt velti ég fyrir mér — og Vesturlönd eða lönd innan EFTA, innan Evrópusambandsins, innan alþjóðasambanda, eiga ekki viðskipti við þessi lönd af góðmennsku, og þannig er það ekki heldur hinum megin frá. Þetta er beggja hagur ef menn ná að stilla saman strengi og leggja áherslu á mannréttindi og hægt er að skilgreina þau. Ég átta mig líka á því að sums staðar er einfaldlega um að ræða réttinn til lífs, annars staðar er þetta rétturinn til að lifa með reisn, það er mislangt á veg komið. Það er samt ákveðin uppgjöf að ganga bara út frá því að við samþykkjum að menn hagi málum þannig að fólk rétt skrimti, dragi fram lífið á litlu og þá eingöngu ef það hagar lífi sínu á þann hátt sem stjórnvöldum hverju sinni er þóknanlegur. Um það snýst málið.

Hugmyndin er að þessi ríki geti einhvern veginn nýtt krafta sína saman. Það er róttæk hugmynd en hún hlýtur á einhverjum tímapunkti að koma upp, vegna þess að þetta er hluti af miklu stærra máli á alheimsvísu. Þetta er hluti af því hvor heimsmyndin verður ofan á, svo ég tali nú um lengri framtíð.

Ég spyr aftur: Er þetta eitthvað sem er algerlega óraunhæft og of róttækt til að hafa uppi á borðinu, að menn geti sameinast um að nota þetta sem vogarafl? Ég segi vogarafl vegna þess að þá erum við virkilega komin með eitthvað sem skiptir máli fyrir samningsaðilana ef menn geta náð einhverri samstöðu um kröfurnar.