149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

411. mál
[12:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls um það mikilvæga mál sem um er að ræða vegna þess að vísindi, rannsóknir og þróun verða drifkraftar hagvaxtar á næstu árum. Það er alveg ofboðslega mikilvægt að við tökum það alvarlega hvernig umgjörðin er um þetta alþjóðlega vísindasamstarf.

Hér ræddi einn hv. þingmaður um að við þyrftum að auka alþjóðlega vísindasamstarfið og nefndi norðurslóðir í þeim efnum. Þá get ég glatt hv. þingmann með því að búið er að ákveða að við munum halda með stjórnvöldum í Japan ráðherrafund um norðurslóðir árið 2020. Allt vísindasamstarf á norðurslóðum er að aukast mjög hratt og örugglega. Við Íslendingar eigum auðvitað að nýta okkur þá landfræðilegri legu sem við höfum til að Ísland verði miðstöð vísinda og rannsókna. Ég sé mikil sóknarfæri í því að við yrðum með ákveðna hvata í kerfinu okkar. Við erum með öflugt menntakerfi. Það er mjög eftirsóknarvert að stunda rannsóknir með íslenskum vísindamönnum og ég hef verið að kynna mér okkar helstu rannsóknastofnanir þetta rúma ár sem ég hef verið mennta-, menningar- og vísindamálaráðherra og þetta er allt mjög tilkomumikið. Við erum með vísindamenn sem leggja sig alla fram við að stunda sínar rannsóknir og það er lofsvert.

Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, mjög brýnt að ríkisstjórnin og Alþingi fjalli um þessi mál og að við tökum tillit til þeirra eins og hefur komið fram í máli annarra hv. þingmanna.

En ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst svolítið dapurlegt að sjá hve fáir eru í salnum að ræða þessi framtíðarmál, að ræða þessi stóru mál sem skipta Ísland svo miklu máli. Ég vonast til þess að við munum sjá öflugri umræðu á hinu háa Alþingi um akkúrat þessi framtíðarmál. Stundum er það svo að þeir sem sitja einmitt í salnum — það er ekki vilji minn að gera athugasemdir við áhuga þeirra heldur miklu frekar þeirra sem ekki sitja í salnum. Hér erum við svo sannarlega að ræða stóru málin og ég kalla eftir breiðri og virkri samvinnu og samráði um þessi mál og þær gagnlegu athugasemdir sem borist hafa í þingsal.

Virðulegur forseti. Það eru spennandi tímar fram undan varðandi þessi mál og við erum í einstöku færi líka varðandi allt menntakerfið okkar, leik-, grunn- og framhaldsskóla, að efla það svo að öflugar vísindarannsóknir verði stundaðar hér til framtíðar.