149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[14:54]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur þessar mikilvægu spurningar. Það vill oft verða þannig að aðferðafræði verður yfirsterkari markmiðunum sem við erum að reyna að ná fram með lagabreytingum eða nýjum lögum. Það finnst mér til að mynda eiga við í þessu tilviki þar sem hv. þingmaður dregur upp mjög skýra mynd af þessum samskiptum frjálsra félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga og mikilvægi þess að samnýta mannvirkin. Svo endar þetta í einhverri þraut um það hvernig kostnaðarskiptingin eigi að vera og hver á og má nota, í staðinn fyrir að horfa á það hver markmiðin eru með því að byggja og hverju við ætlum að ná fram með því að fara þessa leið.

Það má vera að þetta mál í umfjöllun hv. efnahags- og viðskiptanefndar sé einfaldlega tækifæri til að endurhugsa þetta og skoða fyrst markmiðið með þessu, eins og ég fór yfir í minni ræðu. Margt jákvætt hefur verið að gerast. Ef við horfum t.d. á mannvirkin í íþróttastarfseminni eru þau víða sprungin. Börn og unglingar eru að æfa fram undir miðnætti sem stenst varla reglur. Svo er annað mjög jákvætt í lýðheilsuþróuninni, áherslan á hreyfingu eldri borgara. Þeir þurfa líka að komast að. Og hvaða mannvirki eiga þeir nýta? Markmiðið er alltaf það sama, hvort sem í hlut eiga ríki, sveitarfélög, opinberar stofnanir eða frjáls félagasamtök. Við eigum að einblína fyrst á það og svo eigum við að teikna upp leiðina.