149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[15:45]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir þetta mál og fagna því að það er fram komið núna. Það var smávandræðagangur í vor og smáhræðsla við að samþykkja það og ganga alla leið. Það var kannski vegna þess að verið var að taka undir umsagnir nokkurra sveitarfélaga og aðila sem sendu inn af því að það væri svo stutt til kosninga. Ég held að undirstaðan í þessu sé bæði fræðsla og undirbúningur, en nú höfum við þrjú ár sem skiptir gríðarlega miklu máli. Þetta hefur lengi verið mál, þ.e. lækkun á kosningaaldri, sem hefur fengið stuðning í Framsóknarflokknum og Félag ungra Framsóknarmanna hefur fylgt því. Ég var t.d. að leita í gögnum og fann stuðning — þetta kemur fyrst fram 1976 og mikill stuðningur var við það að lækka aldurinn niður í 18 ár. Við höfum fengið hvatningu frá okkar ungliðahreyfingu hvað þetta varðar enda er náttúrlega svo margt sem styður við það, við erum alltaf að stefna í þessa átt.

Barnasáttmálinn hefur að geyma réttindi sem eru mjög víðtæk, eins og t.d. segir um frelsi til félaga-, skoðana-, tjáningar- og trúfrelsis og miðar að því að koma börnum að samtalsborði hvað varðar ákvarðanatöku í þeirra lífi. Þá er svo gott að byrja einmitt í sveitarfélögunum því að þátttaka í samfélagi skiptir gríðarlega miklu máli. Þetta er einmitt það nærsamfélag sem börn fara fyrst að taka þátt í, allt sem snýr að málefnum þeirra hvað varðar íþróttafélög og annan félagsskap sem skiptir máli. Þau verða að komast að þessu borði og þau hafa svo sem gert það núna í ungmennaráðum sem eru starfandi víða um land í flestum sveitarfélögum. Þar er aldursbilið 13–17 ára og það hefur verið virk þátttaka hjá flestum og góð og hefur skilað sér í því að þau hafa komið með bæði tillögur og ábendingar sem aðrir taka kannski ekki eftir. Ég held að þetta skipti líka máli þegar kemur að öðrum kosningum, hvort sem er til Alþingis eða forseta. Þátttaka í lýðræði er lærð hegðun og þá er þetta góður skóli til þess.

Við höfum farið yfir þær umsagnir sem bárust í fyrra og hafa flestar tekið undir þetta, sérstaklega frá ungliðahreyfingum, t.d. Sambandi íslenskra framhaldsskólanema sem hefur rætt frumvarpið og telur þetta mjög jákvæða réttarbót fyrir ungmenni. Þau hafa gengið fram með, eða eins og var verið að tala um hér áðan, t.d. skuggakosningar sem var mjög góð þátttaka í fyrir alþingiskosningar. Fólk sem fylgdist með því var mjög ánægt með það, bæði krakkarnir sjálfir og eins líka þeir sem fylgdust með því. Ég held að það skipti máli að við byrjum einhvers staðar. Við eigum alltaf að vera að víkka út frelsi til að hafa skoðanir og áhrif. Fyrst vorum við bara með karla yfir fertugu og sérstaklega þurftu þeir að eiga eitthvað. Konur fengu að vera með ef þær voru forsjáraðilar fyrir búi og síðan smátt og smátt. Ég held að mjög eðlilegt sé að það endi þannig að þeir sem taka þátt í samfélaginu — 16 ára unglingar sem eru farnir að greiða skatta mega hafa áhrif á hvernig samfélagið virkar.

Ég held að fræðsla skipti líka miklu máli og að við nýtum þann tíma sem er að næstu kosningum til að undirbúa og miða að því að ungu fólki sé veitt þessi fræðsla. Það var smávegis hræðsla líka, heyrði maður, í fyrra með hvernig ætti að koma að með þá sem væru í kjöri, hvernig þeir myndu hafa áhrif á ungmennin og kennarar bentu á að þetta gæti orðið til þess að kosningaáróður færi að birtast í skólunum. Ég held að með samstilltu átaki sé hægt að koma í veg fyrir það. Krakkarnir fá bæklinga heim til sín og í gegnum alla samfélagsmiðla þannig að skólinn hlýtur að geta verið undantekning á því.

Mig langaði til að koma hér upp til að taka undir þetta mál og fagna því. Ég vona að málið gangi nú í gegn. Við höfum þá tíma fram að næstu sveitarstjórnarkosningum til að undirbúa okkur undir það.