149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[16:18]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa bent á hversu ólík stemningin í þingsal er þeirri sem var hér í morgun og er það til marks um að aðeins eru örfáir einstaklingar á þingi sem varpa skuggum inn í þingsal. Þá hef ég gaman af því að upplýsa þjóðina um að vinnan sem skiptir máli innan þings, sem snýr að þingi og þjóð, gengur mjög vel og málefnalega fyrir sig að flestu leyti, þrátt fyrir örfáa einstaklinga.

Ég ætla að hafa þetta stutt en mig langar til að óska hv. þm. Andrési Inga Jónssyni innilega til hamingju með daginn og með að þetta mál sé komið aftur inn í þingsal. Ég var einmitt svo lánsöm að sitja á þingi í vor þegar málið var það langt komið að maður beið eftir að geta ýtt á takkann. En það var ástæða fyrir því að þurfti að fresta. Það er mjög ánægjulegt og mér finnst gaman að taka þátt í framvindu málsins aftur.

Þetta er náttúrlega mikið og spennandi lýðræðismál og í raun og veru mjög rökrétt vegna þess að við sjáum hreyfingu þess efnis bæði á Íslandi og erlendis, á alþjóðagrundvelli, þar sem börn eru í meira mæli að láta heyra í sér í pólitískum tilgangi og setja fram skoðanir sínar. Við sáum t.d. Gretu Thunberg, 15 ára stúlku, sem ávarpaði loftslagsráðstefnu í Póllandi og fordæmdi aðgerðaleysi á heimsvísu hvað varðar loftslagsbreytingar. Eins er sænsk stelpa sem fór í verkfall í mótmælaskyni gagnvart loftslagsaðgerðaleysi og Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir leiklistarnemi setti saman sýningu í LHÍ í um daginn sem gengur undir nafninu Krakkaveldi þar sem hún varpar fram spurningunni: Hvernig myndi þjóðfélagið líta út ef krakkar kysu og væru ráðherrar o.s.frv.? Ég fagna því. Sem foreldri fjögurra barna sjálf gerist það nánast daglega að þau, með leyfi forseta, ég biðst afsökunar á að sletta, „outsmart me“ í rökræðum. Börn eru ekki vitlaus. Svo er annað sjónarmið að börn þurfa í auknum mæli málsvara sem raunverulega er með málefni þeirra og skilning á heiminum á hreinu. Hver er betur til þess fallin en þau sjálf, að einhverju leyti?

Ég lýk máli mínu á þeim orðum og óska þingmönnum og þinginu til hamingju.