149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

Fiskistofa.

[13:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ríkisendurskoðun skilaði á dögunum skýrslu um úttekt á eftirliti Fiskistofu, sem samin var eftir samþykkt Alþingis á tillögu þingflokks Samfylkingarinnar og þriggja þingmanna Pírata. Skýrslan hefur verið rædd í þingnefndum og hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur tekið vel í þá beiðni að ræða skýrsluna hér í þingsal. Það er mikilvægt, enda er skýrslan ekki aðeins áfellisdómur yfir eftirliti Fiskistofu heldur einnig yfir stjórnvöldum og þeirri umgjörð sem eftirlitinu er skapað. Það standa ríkir almannahagsmunir til þess að eftirlit með umgengni og nýtingu sjávarauðlindarinnar sé traust og í samræmi við lög, en í skýrslunni segir að eftirlit Fiskistofu með vistun, brottkasti og samþjöppun aflaheimilda styðji ekki með viðunandi hætti við markmið laga um stjórn fiskveiða og laga um umgengni um nytjastofna sjávar og að grípa þurfi til markvissra ráðstafana til að tryggja skilvirkt og árangursríkt eftirlit sem sé í samræmi við forsendur og ákvarðanir Alþingis um að nytjastofnar sjávar séu nýttir með sjálfbærum hætti.

Niðurstöðurnar koma fiskistofustjóra ekki á óvart enda segist hann hafa bent á þetta árum saman.

Nú hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lagt talsverða vinnu í undirbúning lagafrumvarpa og eru árin 2013–2017 nefnd sérstaklega í skýrslunni í því sambandi, sem átti að styrkja eftirlit Fiskistofu, en þau frumvörp náðu ekki fram að ganga.

Ég spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra hvers vegna þessi vinna ráðuneytisins hafi ekki skilað árangri. Hver hefur komið í veg fyrir að Alþingi hafi fengið lagafrumvörpin til umfjöllunar? Hvers vegna er staðan eins alvarleg og skýrslan sýnir? Telur hæstv. ráðherra að það sé vegna þess að útgerðin hafi það mikið um eftirlit með sjálfri sér að segja að það séu þeir hagsmunaaðilar sem ráðuneytið hefur látið stoppa sig í þeirri mikilvægu vinnu við að gæta hagsmuna almennings?