149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

Fiskistofa.

[13:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Skýrslan sýnir einnig að sveitarfélög standa sig ekki frekar en ríkið í þeim hluta eftirlitsins sem þeim er falið með vigtun á hafnarvog. Í skýrslunni segir að dæmi séu um að vigtarmenn hafi ekki tök á vegna starfsaðstæðna að gaumgæfa samsetningu og íshlutfall þess afla sem veginn er. Þá séu vigtarmenn oft tengdir viðskiptavinum hafnanna fjölskyldu- eða vinaböndum og erfitt geti reynst að tryggja óhæði þeirra í sýnd og reynd.

Við hæstv. ráðherra þekkjum bæði ágætlega til sveitarstjórnarstigsins og vitum væntanlega bæði að í sumum sveitarfélögum ráða útgerðarmenn því sem þeir vilja ráða, jafnvel því hvern sveitarstjórn ræður til starfa við höfnina.

Er hæstv. ráðherra ekki sammála því að skýrslan sýni að í raun hafi bæði stjórnsýslustigin, ríki og sveitarfélög, brugðist í því mikilvæga hlutverki að skapa eftirliti með sjávarauðlindinni fullnægjandi umgjörð og hafi um leið (Forseti hringir.) látið undir höfuð leggjast að gæta að hagsmunum almennings?