149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

Fiskistofa.

[13:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er með mjög beinskeyttar spurningar um að draga einhvern til ábyrgðar fyrir stöðuna eins og hún er og horfir þar til beggja stjórnsýslustiganna, ríkis og sveitarfélaga. Vissulega hefðu bæði stjórnsýslustig getað gert betur í ljósi þessa, en aðstæður á hverjum tíma skapa bæði ríkinu og sveitarfélögunum svigrúm til athafna. Það kann vel að vera, og ég dreg enga dul á það, að við hefðum getað gert betur á mörgum sviðum. Ég er á þeim stað að við þurfum aðeins að fríska upp á umræðuna og nefni hér þingheimi til skemmtunar hið merkilega og góða myndavélafrumvarp, sem svo er kallað, þ.e. ég vil draga þá sýn inn í vinnuna sem leggur áherslu á að við reynum að horfa til nýrrar tækni, nýrrar þekkingar, nýrrar getu við það m.a. að inna af hendi þær skyldur sem ríkinu er ætlað að hafa með höndum og sömuleiðis höfnum. Ég held að full færi séu til þess. En áherslan í umræðunni við úrlausn þessara verkefna er á þann veg að við setjum eftirlitsmenn um borð í hverja einustu fleytu. Það mun aldrei verða svo. (Forseti hringir.) Ég er hins vegar tiltölulega bjartsýnn, í kjölfarið á þeim viðtökum sem þessi skýrsla hefur fengið, á að við munum geta náð saman um úrbætur í þessum efnum, (Forseti hringir.) og það mun þjóna almenningi í landinu mætavel.