149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

uppbygging fjármálakerfisins.

[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Stjórnir ríkisbankanna eru sjálfstæðar í störfum sínum að lögum, þá er ég að meina að hlutafélagalögum, en líka samkvæmt því sérstaka fyrirkomulagi sem við höfum komið upp. Nú heldur þingmaðurinn áfram með eins konar dylgjur í tengslum við Borgunarmálið, líkt og gert var í umræðu um skýrslu fjármálaráðherra um hvítbók um framtíð fjármálakerfisins. Ég held að kominn sé tími til þess að þingmaðurinn geri grein fyrir því hvernig fjármálaráðherra á að hafa haft afskipti í Borgunarmálinu vegna þess að hann hefur dylgjað um að fjármálaráðherrann hafi verið með afskipti í því máli.

Hér er spurt hvort mikill tækifæriskostnaður felist í því að binda þetta mikið eigið fé í bönkunum. Ég held að það sé alveg óumdeilt og það er ekki í neinum beinum tengslum í mínum huga við hugmyndir um þjóðarsjóð, sem er hugsaður til langs tíma. Þetta er alls ekki þannig að við getum annaðhvort byggt upp þjóðarsjóð eða átt bankana. Þetta er ekki þannig í mínum huga og ekki í raunveruleikanum, heldur er þjóðarsjóðshugmyndin algerlega ótengd því hvort nauðsynlegt sé að ríkið bindi mikið eigið fé í fjármálafyrirtækjum í landinu.

Ríkisskuldir hafa lækkað mjög verulega og um leið hefur geta okkar vaxið til að auka innviðafjárfestingu, enda stendur í dag yfir átak til að fjármagna betur vegakerfið. Við settum af stað strax í fyrra fyrstu skrefin til að auka fjárfestingu í vegakerfinu á Íslandi, í samgöngum. Við erum sömuleiðis að styrkja félagslega innviði verulega. Rammasett útgjöld í fjárlögum hafa frá árinu 2015 vaxið frá rúmlega 4% að raungildi upp í tæp 10% á hverju ári. Það er vegna þess að staða ríkissjóðs hefur lagast þetta mikið, þannig að við erum í betri færum til að fjárfesta. (Forseti hringir.) Ég kem að öðru í síðara andsvari.