149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

uppbygging fjármálakerfisins.

[10:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Í hvítbókinni er fjallað um samkeppni í fjármálaþjónustu á Íslandi og þar eru færð rök fyrir því að fjölbreyttara eignarhald gæti verið til þess fallið að auka samkeppnina á íslenskum fjármálamarkaði. Færð eru fram fyrir því rök sem ég sé að hv. þingmaður hefur efasemdir um og telur að sjálfstæðar stjórnir í ríkisbönkum séu góð leið til að tryggja mikla samkeppni milli banka. Þar held ég að við séum og verðum áfram ósammála.

Það var spurt hvort mikil hætta væri á bankahruni. Ég tel ekki að hætta sé á bankahruni eins og sakir standa en menn verða að gæta að sér ef þeir ætla að spá langt inn í framtíðina. Ég tel í sjálfu sér að við höfum öll tæki og tól til að gæta eða byggja upp varúð gagnvart slíku tjóni án beinnar eignaraðildar. Það er í mínum huga aðalatriðið.

Varðandi þær hugmyndir sem hafa verið á floti að undanförnu (Forseti hringir.) um frekari innviðafjárfestingu og sérstaklega í vegakerfinu er sú spurning fyrst og fremst um það hvort við viljum flýta framkvæmdum eða ekki.