149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

vestnorræna ráðið 2018.

529. mál
[12:00]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvar hv. þingmanns. Fjarskiptin eru auðvitað erfitt viðfangsefni í gríðarlega stóru landi og strjálbýlu eins og Grænland er. Það er ein stóra áskorunin hjá Grænlendingum. Þeir hafa sömuleiðis áhyggjur af aukinni umferð stórra skipa, bæði flutningaskipa og farþegaskipa, við strendur Grænlands og kvarta undan því að það þurfi að herða dálítið reglurnar um aðkomu skemmtiferðaskipa að landi því að þeir segja hreinlega að skemmtiferðaskipin hleypi fólki í land án eftirlits og án leyfa. Þetta er ein áskorunin. Við höfum auðvitað rætt það í Vestnorræna ráðinu hvort við getum unnið saman að einhverri sameiginlegri sýn á þessi atriði. En öryggismálin eru þeim hugleikin. Það er enginn vafi.

Varðandi flugleiðsögnina: Það er líka stórt verkefni og við gerum auðvitað ráð fyrir því að Grænlendingar muni nýta sér bestu fáanlegu tækni. Færeyingar hafa náð miklum árangri varðandi sínar flugvélar sem lenda í Færeyjum og mér skilst, þó að ég hafi ekki þekkingu á því, að þeir séu með sérstakan búnað sem ekki öll flugfélög ráða yfir eða hafa ekki færni til að nýta. En flugsamgöngur við Færeyjar hafa nefnilega gengið giska vel með þessum stóru flugvélum.