149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

vestnorræna ráðið 2018.

529. mál
[12:22]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að flytja okkur skýrsluna. Mig langar líka að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, virðulegum forseta þingsins, fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég held að það skipti okkur sem erum heldur nýrri í þessu starfi miklu máli að fá að heyra söguna og reynsluna sem virðulegur forseti hefur vissulega.

Ég sit í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins og hef gert síðan ég kom inn á þing og verð að segja að þetta er virkilega áhugavert alþjóðasamstarf. Mig langar líka að segja að það er kannski mun merkilegra og mikilvægara en margir kynnu að halda við fyrstu sýn. Við störfum með þessum nágrannaþjóðum okkar, þjóðþingum þeirra, sem eru ekki alveg sjálfstæðar þjóðir en hafa þó töluvert sjálfræði í sínum málum, þó að það sé ekki í alveg öllum. Það gerir þetta kannski líka svolítið spennandi að þær horfa auðvitað til reynslu og sögu okkar. Virðulegur þingmaður sem talaði hér á undan mér talaði einmitt um að flestir stefndu í þá átt. Þá held ég að þessar þjóðir hafi mörgu að deila sín á milli og hagsmunir þeirra eru auðvitað mjög sambærilegir. Þetta eru allt eyjar í miðju Norður-Atlantshafinu, við eigum mjög mikið undir auðlindum hafsins og þar af leiðandi eru loftslagsmálin og áhrif þeirra á hafið okkar, heilbrigði hafsins, súrnun sjávar, bráðnun jökla, risastórt mál fyrir allar þessar þjóðir. Ég held að í nákvæmlega þeim málum hafi þessar þjóðir mjög virka rödd og eigi að hafa mjög sterka rödd þegar kemur að því að tala fyrir friðsamlegu alþjóðlegu samstarfi á sviði vísinda og rannsókna á norðurslóðum.

Nú gætu sumir haldið að ég væri fyrst og fremst að tala um norðurslóðamál, og ég veit að hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kemur hingað á eftir og talar um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál, en Vestnorræna ráðið hefur starfað töluvert með þeirri þingmannanefnd, enda hefur ráðið áheyrnaraðild að því þingmannaráði. Þarna fara hagsmunir saman.

Við erum einmitt, eins og fram hefur komið, að halda þemaráðstefnu þessa dagana, héldum þemaráðstefnu í gær og erum að halda innri fundi Vestnorræna ráðsins þessa dagana. Það var mjög áhugavert að hlusta á fyrirlesarann í gær og ekki síst þá umræðu sem átti sér stað í pallborðinu um einmitt þessa þróun mála og hvernig þjóðirnar sjá þá þróun fyrir sér. Það er hægt að fara í svartsýnisgírinn og segja að að okkur steðji mikil hætta, sem okkur gerir, af loftslagsbreytingum og það er algerlega óvíst um heilbrigði hafsins og þeirra auðlinda sem við höfum í gegnum tíðina treyst hvað mest á. En það er líka hægt að horfa til þess að í ógnunum leynast oft tækifæri. Það er spurning hvernig við náum að hagnýta okkur þau tækifæri, á sama tíma og við reynum eins og kostur er að standa vörð um náttúruna og spyrna við fótum þegar kemur að hlýnun jarðar. Ég held að það sé samt óhjákvæmilegt að horfa til þess að ísinn er að bráðna og að við það opnast tækifæri á sama tíma og ákveðnar ógnanir.

Þess vegna held ég að sé svo mikilvægt að þessar þjóðir deili sinni sýn og komi sér saman um ákveðna hagsmuni. Ég er ein af þeim þingmönnum sem sitja í undirnefnd um það að Vestnorræna ráðið móti sér stefnu í norðurslóðamálum og ég held að það sé mikilvægt. Það er ekki mjög einfalt. Það kom t.d. fram á ráðstefnunni í gær, þá fer fólk að velta fyrir sér hlutum og segir: Bíddu, það eru utanríkismál, norðurslóðamál eru utanríkismál, það eru ekki mál sem eru á sviði þjóðþinganna. Danir fara í rauninni með utanríkismál þeirra. En ég treysti því nú samt sem áður að við munum ná að móta okkur slíka stefnu og æski þess að okkar ágætu félagar, Danir, taki líka undir það að þessar þjóðir hafi með sér samstarf á þessum vettvangi.

Mér finnst ég ekki geta komið hér upp og rætt um Vestnorræna ráðið og það sem við höfum verið að gera öðruvísi en að koma inn á Hoyvíkursamninginn. Mér finnst það mjög sorglegt að staðan sé sú að utanríkisráðherra Færeyja hafi farið með það fyrir þingið að fá samþykkt fyrir því að segja samningnum upp. Þingið samþykkti það reyndar. Mér skilst að það hafi verið svolítið í skjóli nætur, það skapaðist ekki mikil umræða um það. Umræða hefur auðvitað verið um Hoyvíkursamninginn í töluverðan tíma eftir að Færeyingar settu sér ný lög um fiskveiðistjórn þar sem þeir setja í rauninni bann við því að erlendir aðilar eigi hluta af kvótanum. Ég get haft ákveðinn skilning á þeirri stöðu sem þá kom upp, en því miður hefur okkur ekki enn þá lánast að finna út úr því hvernig fríverslunarsamband til framtíðar við getum haft við Færeyinga. En ég verð þó að segja að mér finnast góðu fréttirnar vera þær að eftir að við höfum einmitt hist á þessari ráðstefnu og rætt málin, hvort sem það er á ráðstefnunni sjálfri eða yfir kvöldverði í gær eða í rútunni núna úti á Reykjanesi, þar sem ég veit að stór hluti af hópnum er, finnur maður að færeyskir þingmenn hafa fullan vilja til þess að stunda fríverslun við Ísland. Ég held að það sé mikill skilningur á því meðal atvinnulífsins í Færeyjum að það skipti máli.

Ég er á þeirri skoðun að fríverslunarsamningar skipti gríðarlega miklu máli og að aukin viðskipti landa á milli auki síðan á annars konar samstarf. Þeir ýta undir samstarf á sviði menningar, lista, menntamála, skipta máli fyrir frjálst flæði fólks og það verður bara til svo miklu meira þegar um öflug viðskipti ríkja er að ræða. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Það kom mér í rauninni á óvart þegar ég fór að skoða viðskiptasöguna að þegar kemur að vöruskiptajöfnuðinum höfum við verið að flytja meira út til Færeyja en Færeyingar til okkar en þegar kemur að þjónustukaupum og þau eru tekin inn eru Færeyingar í plús. Það finnst mér eins og hafi kannski örlítið vantað inn í umræðuna í Færeyjum. Við höfum verið að ræða þetta núna við færeysku þingmennina. Ég held að þau átti sig núna mun betur á því og ég hygg líka að atvinnulífið í Færeyjum hafi svolítið sýnt þingmönnunum fram á það hversu mikilvægt þetta er. Ég efast ekki um að Færeyingar, eins og alltaf í svona málum, hafi eitthvað til síns máls og það kunni að vera eitthvað sem við þurfum að skoða í okkar samningi, en þær upplýsingar sem við höfum fengið, bæði í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins og í utanríkismálanefnd, eru að það hafi vantað ákveðin viðbrögð frá Færeyingum við því hvernig eigi að leysa þetta mál.

En mér finnst góðu fréttirnar vera þær að það virðist vera góður vilji hjá færeyskum þingmönnum þannig að ég hygg að við hljótum með tíð og tíma að finna góða lausn á þessu. Ég myndi líka mjög gjarnan vilja að Grænlendingar kæmu inn í þetta fríverslunarsamkomulag okkar, hvort sem það væri undir nafni Hoyvíkursamningsins eða annars konar nafni. Ég held að það hljóti að vera mjög mikilvægt fyrir þessar litlu þjóðir sem hafa tiltölulega einsleita atvinnuvegi að gera fríverslunarsamning við ekki stærra ríki en Ísland og eiga möguleika á frjálsum viðskiptum og hægt sé að ýta undir frekara samstarf á sviði viðskipta, menningar og lista í gegnum slíkt. Ég ber miklar væntingar til þess að við náum að leysa þetta.

Ég tek undir það sem hefur komið fram í ræðum áður að þarna sér maður hvað svona þingmannasamstarf skiptir máli, þegar fólk hittist og talar saman og fær að heyra sjónarmið hvert annars. Það vill oft verða svoleiðis að þegar ráðherrar tala saman tali þeir svolítið saman í gegnum embættismenn og það er svolítið kerfi á bak við það, miklu meiri formfesta og stundum erfiðara að komast að því hver raunverulegur viljinn er á bak við. Þegar upp kemur mál eins og komið hefur upp í samskiptum okkar við Færeyinga held ég að við í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins eigum að beita okkur og ég held að við höfum mikil tækifæri til þess og hef væntingar um að við náum einhverjum árangri hvað það varðar.

Að því sögðu hugsa ég að ég fari nú bara drífa mig út á Reykjanes að hitta félaga mína í Vestnorræna ráðinu sem eru þar að heimsækja fyrirtæki og stofnanir.