149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

NATO-þingið 2018.

524. mál
[14:26]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2018. Á vettvangi NATO-þingsins árið 2018 bar hæst óstöðugleikann í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi og þann mikla flóttamannavanda sem þau hafa valdið á nágrannasvæðum og í Evrópu. Samstarf við ríki utan bandalagsins og uppbygging stöðugleika bæði til suðurs og austurs, auk baráttunnar við hryðjuverkaógnina, var því í brennidepli.

Þá var rík áhersla lögð á ástandið í Úkraínu og samskipti NATO og Rússlands sem hafa ekki verið eins slæm frá lokum kalda stríðsins og versnuðu enn frekar í kjölfar aukinnar hernaðaríhlutunar Rússa í Sýrlandi. Nefndarmenn voru því sammála um nauðsyn þess að styrkja stöðu NATO gagnvart Rússlandi þótt lögð hafi verið áhersla á mikilvægi samræðna milli Rússa og NATO-þingsins. Þá ályktaði þingið um uppfærslu viðbragða við herbrögðum Rússa með áherslu á afskipti af kosningum og rangri upplýsingagjöf.

Rætt var um mikilvægi þess að draga úr niðurskurði á fjárframlögum til varnar- og öryggismála í takt við skuldbindingar aðildarríkjanna. Þá varð nefndarmönnum tíðrætt um jafnari byrðar á bandalagsþjóðir, aukin fjárframlög Evrópuríkja og að aðildarríkin stefndu að því að ná markmiði um að útgjöld til varnarmála næðu 2% af vergri landsframleiðslu fyrir árið 2024 til að mæta breyttum öryggishorfum.

Jafnframt var áhersla lögð á samstarf NATO og Evrópusambandsins, stjórnmálastefnu bandalagsins og öryggishorfur í Evrópu. Þá fengu málefni norðurslóða aukna athygli á árinu og ályktaði þingið um öryggi og samstarf á svæðinu. Enn fremur voru til umræðu jafnréttismál innan NATO og mikilvægi þess að innleiða þau í starfsemi og stefnur tengdar öryggis- og varnarmálum með innleiðingu öryggisályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Af fleiri málum sem voru ofarlega á baugi á árinu má nefna ástandið í Norður-Kóreu, hervæðingu samfélagsmiðla og falsfréttir, netöryggi, geimvarnir og orkuöryggi.

NATO-þingið er þingmannasamtök sem hefur allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Níu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra, Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands, sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Á NATO-þinginu eiga sæti 262 þingmenn frá aðildarríkjunum 29. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls á 61 þingmaður frá 13 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, nema fundum stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.

Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2018 Njáll Trausti Friðbertsson formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður, þingflokki Viðreisnar, og Willum Þór Þórsson, þingflokki Framsóknarflokks. Varamenn voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Halla Signý Kristjánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Jón Steindór Valdimarsson, þingflokki Viðreisnar. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang alþjóðaritari.

Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2018 var eftirfarandi:

Stjórnarnefnd Njáll Trausti Friðbertsson, stjórnmálanefnd Njáll Trausti Friðbertsson, varnar- og öryggismálanefnd Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nefnd um borgaralegt öryggi Willum Þór Þórsson, efnahagsnefnd Willum Þór Þórsson, vísinda- og tækninefnd Njáll Trausti Friðbertsson, vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Njáll Trausti Friðbertsson var á árinu kosinn einn af fjórum varaformönnum vísinda- og tækninefndar NATO-þingsins.

NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.

Árið 2018 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, stjórnarnefndarfundi í Vilníus, vorfundi í Varsjá og ársfundi í Halifax.

Dagana 19.–21. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmála-, efnahags-, öryggis- og varnarmálanefnda. Að þessu sinni sóttu fundina 110 þingmenn frá 29 aðildarríkjum NATO-þingsins. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Helstu mál á dagskrá fundarins voru baráttan gegn hryðjuverkum, ástandið í Úkraínu, kólnandi samskipti NATO og Rússlands og loks óstöðugleikinn í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti Njáll Trausti Friðbertsson formaður fundina, auk Örnu Gerðar Bang ritara.

Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 19. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum hjá þingmönnum en umræðum stjórnaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Stoltenberg ræddi m.a. um helstu áhersluatriði næsta leiðtogafundar NATO sem fór fram í Brussel í júlí 2018, um hryðjuverkaógnina, um mikilvægi þess að aðildarríkin ykju framlög sín til öryggis- og varnarmála og um óvissu um fyrirætlanir Rússa. Þá lagði hann áherslu á að bandalagið þyrfti að tryggja jafnvægi milli þess að takast á við áskoranir sem koma úr austri annars vegar og suðri hins vegar.

Hinn árlegi fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins fór að þessu sinni fram í Vilníus 24. mars. Á meðal helstu dagskrármála fundarins var taugaeitursárásin í Bretlandi 4. mars 2018 og samskipti NATO-þingsins við Rússland. Auk þess var umræða um starfsáætlun og fjárhagsáætlun NATO-þingsins fyrir árið 2018 og stefnu Litháen í öryggis- og varnarmálum. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Njáll Trausti Friðbertsson, auk Gunnþóru Elínar Erlingsdóttur, starfandi ritara.

Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Varsjá dagana 25.–28. maí 2018. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Njáll Trausti Friðbertsson formaður auk Örnu Gerðar Bang ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna og alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Helstu umræðuefni fundarins voru ástandið í Rússlandi, með áherslu á afskipti af kosningum og ranga upplýsingagjöf, og baráttan gegn hryðjuverkaógninni. Einnig fór fram umræða um ástandið í Íran, átökin í Sýrlandi, flóttamannavandann, ástandið í Norður-Kóreu og orkuöryggi. Rúmlega 260 þingmenn sóttu fundinn frá 29 aðildarríkjum auk fulltrúa frá 22 aukaaðildar- og áheyrnarríkjum.

Á vorfundinum var tekin ákvörðun um að Ruxandra Popa tæki við starfi framkvæmdastjóra NATO-þingsins árið 2019 af David Hobbs sem gegnt hefur starfinu síðan 2008.

Auk þess fór fram vinna í vinnuhópi um menntun og kynningu á öryggismálum og verkefnum NATO í aðildarríkjunum. Njáll Trausti Friðbertsson tók þátt í fundum nefndarinnar og lagði m.a. áherslu á mikilvægi þess að upplýsa ungmenni um grundvallarmarkmið bandalagsins í tengslum við sögulega þróun og breytt ástand öryggismála í heiminum í dag. Spurningalisti hefur verið sendur frá NATO-þinginu til menntamálaráðuneyta allra aðildarríkja þar sem óskað er upplýsinga um framkvæmd fræðslu um öryggismál í grunnskólum ríkjanna.

Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 28. maí þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Paolo Alli, forseti NATO-þingsins, Marek Kuchcinski, forseti pólska þingsins, Andrzej Duda, forseti Póllands, Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. Forseti NATO-þingsins setti fundinn og sagði m.a. í ræðu sinni að sjónum yrði sérstaklega beint að varnarútgjöldum aðildarríkjanna í ljósi nýrra öryggisógna. Aðildarríkin hefðu neyðst til að snúa við áratugalöngum niðurskurði til varnarmála árið 2014 eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga ólöglega. Þau væru byrjuð að færast nær því markmiði að 2% af vergri landsframleiðslu sé varið til varnarmála árið 2024, þótt sum ríkin þurfi að koma á fót aðgerðaáætlun til að ná því marki. Þá sagði Alli: „Þar sem við köllum saman þingmenn sem bera ábyrgð á fjárhagsáætlun varnarmála aðildarríkjanna er ljóst að NATO-þingið gegnir mikilvægu hlutverki við að ná samstöðu varðandi sanngjarnari dreifingu þess álags sem fylgir sameiginlegum vörnum okkar.“ Það væri málefni sem varðaði bæði hernaðarlegan árangur og stjórnmálalega samstöðu.

Ársfundur NATO-þingsins var haldinn í Halifax dagana 16.–19. nóvember 2018. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Njáll Trausti Friðbertsson formaður og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður auk Örnu Gerðar Bang ritara. Um 300 þingmenn frá 28 aðildarríkjum NATO og fulltrúar 13 annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna, sem unnar voru af nefndarmönnum, og fyrirlestra alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst hefur borið í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og kosið um ályktanir og ákvarðanir þingsins. Helstu umræðuefni fundarins voru málefni norðurslóða, geimvarnir, samstarf NATO og Evrópusambandsins, átökin í Sýrlandi og eldflaugavarnir. Einnig fór fram umræða um hervæðingu samfélagsmiðla og falsfréttir.

Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins fyrri hluta árs 2019. Áhersla verður m.a. lögð á þá þekkingu og reynslu sem NATO hefur aflað sér á 70 ára starfsafmæli sínu árið 2019. Sjónum verður beint að því hvernig bandalagið getur tekist á við fjölþættar nýjar áskoranir sem blasa við og tryggt getu sína og nauðsynlegan styrk til þess að standa við skuldbindingar sínar. Þá verða málefni Rússlands áfram í brennidepli og ástandið í Sýrlandi auk þess sem aukinni athygli verður beint að Afríku.

Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 19. nóvember þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Rasa Jukneviciene, fráfarandi forseti NATO-þingsins, Harjit Singh Sajjan, varnarmálaráðherra Kanada, og Rose Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO. Jukneviciene lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO á tímum fjölmargra öryggisógna vegna hryðjuverkastarfsemi og óstöðugleika suður af Evrópu auk óvinveittrar afstöðu Rússlands í austri. Varnarmálaráðherra Kanada, Harjit Singh Sajjan, sagði samstarf aðildarríkja NATO jafnvel enn mikilvægara nú en áður í ljósi nýrra ógna. Hvort sem brugðist yrði við árásargjarnri hegðun Rússa í Austur-Evrópu eða vaxandi óstöðugleika víða um heim stæðu menn frammi fyrir enn flóknari ógnum en áður.

Á ársfundinum var breska þingkonan Madeleine Moon kosin nýr forseti NATO-þingsins og tók hún við embættinu af Rösu Jukneviciene frá Litháen. Í ræðu sinni lagði Moon áherslu á mikilvægi þess að aðildarríkin stæðu við skuldbindingar sínar í varnarmálum auk þess sem hún ítrekaði áherslur sínar um að efla forustu ungu kynslóðarinnar og samstarfsaðila NATO. Enn fremur lagði hún áherslu á jafnréttismál innan NATO sem utan og vísaði til ályktunar Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Hún sagði mikinn árangur hafa náðst á sviði jafnréttismála undanfarinn áratug og að hún vildi tryggja áframhaldandi vitundarvakningu um ómetanlegt starf kvenna að öryggismálum í víðum skilningi.

Áður hafði Clare Hutchinson, sérstakur fulltrúi varðandi konur, frið og öryggi hjá NATO, kynnt fyrir fundargestum niðurstöður nýlegrar könnunar um jafnréttismál hjá NATO þar sem m.a. kom fram að 12% af starfsmönnum bandalagsins væru konur. Hún sagði þessa tölu allt of lága en þróunin væri samt upp á við þótt hún mætti vera hraðari. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að jafnréttissjónarmið yrðu innleidd í alla starfsemi NATO, bæði hernaðarlega og pólitíska uppbyggingu. Auk þess þyrfti að uppræta kynbundna misnotkun og áreitni innan NATO án tafar.

Njáll Trausti Friðbertsson vakti athygli á málefnum norðurslóða og á auknu vægi svæðisins í alþjóðlegri umræðu. Hann sagði landfræðilega legu, bætt aðgengi að náttúruauðlindum og áhrif loftslagsbreytinga hafa opnað augu umheimsins fyrir tækifærum og áskorunum á svæðinu. Með auknu mikilvægi svæðisins varðandi viðskipti og landfræðistjórnmálalegar breytingar óttuðust menn aukna spennu milli strandríkja á norðurslóðum en Rússar hefðu nú þegar aukið hernaðarviðbúnað sinn þar. Í ljósi þessarar þróunar, og með hliðsjón af því að fimm af aðildarríkjum NATO eiga landsvæði á norðurslóðum, spurði Njáll Trausti Rose Gottemoeller, aðstoðarframkvæmdastjóra NATO, hvort hún teldi að NATO ætti að hafa aukin afskipti af málefnum norðurslóða. Gottemoeller svaraði því til að málefni norðurslóða væru afar mikilvæg og yfirstandandi loftslagsbreytingar hefðu aukið áhuga á svæðinu. Hún sagði að NATO mætti vera virkara þegar kæmi að málefnum norðurslóða og að bandalagið treysti á aðildarríki sín á norðurslóðum eins og Noreg og Ísland til að veita leiðsögn í þeim málum.

Nefndarmenn Íslandsdeildar sóttu fjölmargra nefndarfundi á árinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sótti fund varnar- og öryggismálanefndar í mars í Doha og í september í Madríd og Lissabon. Einnig sótti hún ráðstefnu NATO-þingsins í Washington í desember. Njáll Trausti Friðbertsson sótti fundi vísinda- og tækninefndar í maí í Ósló og Bodø og í október í San Diego. Einnig sótti hann fundi stjórnmálanefndar í New York og Boston í október. Þá heimsótti forseti NATO-þingsins Alþingi í maí.

Undir þessa skýrslu skrifa Njáll Trausti Friðbertsson formaður, Þorgerður K. Gunnarsdóttir varaformaður og Willum Þór Þórsson.

Ég vil nota tækifærið og þakka Örnu Bang, ritara Íslandsdeildar, fyrir gott og ánægjulegt samstarf í tengslum við störf nefndarinnar. Þessi skýrsla er töluvert efnismeiri en ég hef flutt hér í máli mínu og vil endilega hvetja þingmenn til að kynna sér hana. Gríðarlega stór og mikilvægur málaflokkur er undir í störfum NATO-þingsins og mikil fjölbreytni er í störfum þingsins. Þá læt ég máli mínu lokið.