149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

alþjóðaþingmannasambandið 2018.

525. mál
[15:11]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2018. Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins á árinu 2018 eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykja standa upp úr með tilliti til markmiða sambandsins sem eru að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.

Fyrst ber að nefna umræðu um hvernig efla megi hnattrænar lausnir fyrir innflytjendur og flóttamenn. Í ályktun Alþjóðaþingmannasambandsins um efnið var lögð áhersla á að fylgt væri bestu starfsháttum, m.a. hvað varðar aukin fyrirsjáanleg framlög til lengri tíma og aukna samhæfingu mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Auk þess var sjónum beint að konum sem flóttamönnum með áherslu á réttindi þeirra í móttökulandinu og möguleika á atvinnu og aðlögun.

Á árinu var enn fremur í brennidepli umræða um baráttuna gegn loftslagsbreytingum og ályktaði sambandið um málið. Voru þingmenn hvattir til að beita sér fyrir þjóðarátaki til að berjast gegn hlýnun jarðar og kallað var eftir aðgerðum aðildarríkjanna við að innleiða Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem samþykktur var árið 2016. Jafnframt var ályktað um varanlegan frið sem forsendu sjálfbærrar þróunar þar sem sýnt er fram á tengsl milli árangursríkrar innleiðingar á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og varanlegs friðar og að uppbygging sterkra innviða og stofnana eins og þjóðþinga sé þar nauðsynlegur þáttur.

Einnig var almenn umræða um hlutverk þjóðþinga við að stuðla að friði og framþróun á tímum nýsköpunar og tæknivæðingar. Lögð var áhersla á að koma þyrfti í veg fyrir að bilið milli vísinda og stjórnmála héldi áfram að breikka, ekki síst í ljósi þess að stefnumörkun væri í auknum mæli lituð lýðskrumi og tilfinningarökum í stað staðreynda og sannana. Þá var ítrekað rætt um stöðu kvenna í þjóðþingum heims og hvernig auka mætti aðgengi þeirra að þátttöku í stjórnmálum.

Um önnur stór mál er fjallað í inngangi skýrslunnar og annað sem áhersla var lögð á á þessu ári. Þá er einnig sérkafli í skýrslunni almennt um Alþjóðaþingmannasambandið, en þar eiga 178 þjóðþing aðild, og nánar er fjallað um þær fastanefndir og ráð sem starfa innan þess.

Skipan og starfsemi Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins er með þeim hætti að aðalmenn Íslandsdeildar árið 2018 voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Miðflokksins, og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Bergþór Ólason, þingflokki Miðflokksins, Helga Vala Helgadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Arna Gerður Bang var alþjóðaritari deildarinnar og á skilið miklar þakkir fyrir það samstarf og gott samstarf á árinu, allan undirbúning og hjálp sem þingmenn fengu við þetta starf á síðasta ári. Íslandsdeildin hélt þrjá fundi á árinu 2018 sem voru aðallega undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU.

Árlega eru tveir þingfundir, vorþing og haustþing. Einnig er hægt að sækja fleiri fundi og skiptast Norðurlöndin á um að fara með formennsku í norræna hópnum sem hittist einnig tvisvar á ári og voru báðir fundirnir í fyrra haldnir í Svíþjóð. Auk þess sem formaður tók þátt í þeim fundum tók hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson þátt í árlegum fundi Sameinuðu þjóðanna í New York í febrúar.

Ég ætla að fara aðeins yfir frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti. Fyrst var það fundur norrænna landa í Uppsölum 9. mars í Svíþjóð, þar sem rætt var um niðurstöður haustþings Alþjóðaþingmannasambandsins í Pétursborg í október árið áður, farið yfir mikilvægi þess að norrænu ríkin ættu fulltrúa á flestum fundum hjá Alþjóðaþingmannasambandinu og ekki síst í hópi ungra þingmanna. Sá umræðuvettvangur er mjög virkur í Alþjóðaþingmannasambandinu og hefur vaxið á undanförnum misserum, en ég hef tekið þátt í fundum ungra þingmanna. Enn fremur var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir og framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna, sem eru góðir til að búa okkur undir það hlutverk okkar að hafa sem mest áhrif í Alþjóðaþingmannasambandinu, á haust- og vorþingum þess. Þeir samráðsfundir eru haldnir til skiptis í norrænu ríkjunum.

Öll þingmannadeildin hélt á vorþing í mars í Genf þar sem helstu dagskrármál snerust um varanlegan frið sem forsendur sjálfbærrar þróunar, hvernig virkja mætti einkageirann til aukinnar þátttöku í innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og hvernig byggja mætti upp sjálfbær samfélög.

Einnig fór fram utandagskrárumræða um afleiðingar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis og um réttindi Palestínumanna í Jerúsalem.

Þá hittist einnig tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, sem fer yfir ýmis mál. Þar gegnir sérstök nefnd um mannréttindi þingmanna veigamiklu hlutverki og vinnur mikið á milli þinga; hún fer yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun þingmanna, hótanir, barsmíðar, mannshvörf eða dauðsföll.

Á þessu vorþingi voru lagðar fram tillögur að neyðarályktun, í upphafi þingsins eins og venja er, og má taka eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum. Fyrir valinu varð, eins og fyrr segir, tillaga um afleiðingar yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar um að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis og um réttindi Palestínumanna í Jerúsalem.

Þá var almennt rætt um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og var sjónum beint að því hvernig efla mætti hnattrænar lausnir fyrir innflytjendur og flóttamenn. Skoðuð voru tvö ferli sem unnið er samkvæmt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Lögð var áhersla á að fylgja sem bestum starfsháttum og einnig var lögð áhersla á að horft sé til þess að aðstoð sé kyngreind og að tölulegar upplýsingar liggi fyrir og að styðja við þau ríki sem taka á móti miklum fjölda flóttamanna. Þá var fjallað um fleiri mál í sérstökum nefndum, bæði efnahags- og viðskiptamál, öryggismál og annað um sjálfbæra þróun, sem nánar má lesa um í skýrslunni.

Seinni norræni samráðsfundurinn var haldinn í Kiruna 22. september til undirbúnings haustþinginu. Sú sem hér stendur sótti þann fund. Farið var vel yfir fjárhagsáætlun og fjármögnun Alþjóðaþingmannasambandsins og framlög landa til þessa samstarfs. Einnig fór fram umræða um niðurstöðu vorþings og annarra ráðstefna sem farið hafa fram milli þessara norrænu funda, en norrænu ríkin hafa átt fulltrúa í trúnaðarstörfum í flestum nefndum Alþjóðaþingmannasambandsins auk framkvæmdastjórnar undanfarin ár og var mikilvægi þess ítrekað og sérstaklega rætt um mikilvægi umræðuvettvangs ungra þingmanna hjá Alþjóðaþingmannasambandinu. Undirrituð greindi frá því að allir þrír þingmenn Íslandsdeildar tilheyra enn hópi ungra þingmanna samkvæmt skilgreiningu sambandsins, en þar er miðað við að ungir þingmenn séu 45 ára og yngri og er það kannski aðeins rýmri skilgreining en við leggjum hér í skilgreiningu á ungum þingmönnum.

Þá var rætt um nýtt umræðuefni nefndarinnar er varðar hlutverk þjóðþinga við að binda enda á mismunun á grundvelli kynferðis og kynhneigðar og tryggja virðingu fyrir mannréttindum LGBTI-fólks. Það lá fyrir að greidd yrðu atkvæði um hvort það umræðuefni yrði tekið á dagskrá. Miklar umræður höfðu skapast á vorþinginu um málið og tóku fulltrúar allra landfræðihópa til máls og voru skoðanir mjög skiptar um það eitt að setja þessi mál á dagskrá til umræðu. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að fresta atkvæðagreiðslunni til haustþingsins. Í millitíðinni sendi landsdeild Írans harðort bréf og krafðist þess að efnið yrði ekki rætt á þessum vettvangi mannréttinda og lýðræðis.

Framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannasambandsins skoðaði málið sem á sér ekki fordæmi hjá sambandinu og vorum við sammála um það á norræna samráðsfundinum að styðja að málefnið yrði sett á dagskrá af heilum hug og það sé ekki síst mikilvægt í ljósi meginmarkmiða Alþjóðaþingmannasambandsins, sem er að stuðla að bættum mannréttindum og lýðræði í heiminum. Niðurstaðan var að e.t.v. væri rétt að endurskoða tilgang sambandsins ef ekki væri hægt að ræða umdeild mál á þingum Alþjóðaþingmannasambandsins.

Haustþingið sjálft, sem fór fram í Genf 14.–18. október 2018, sóttu allir þingmenn Íslandsdeildarinnar. Var helsta umræðan ályktun um hlutverk frjálsra og óháðra viðskipta og fjárfestinga við að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og hvernig styrkja mætti samstarf þjóða varðandi innflytjendur í ljósi innleiðingar samkomulags Sameinuðu þjóðanna Global Compact for Safe, Orderly and Regular Migration og einnig um hlutverk þjóðþinga í að stuðla að friði og framþróun á tímum nýsköpunar og tæknivæðingar.

Utandagskrárumræðan var um baráttu gegn loftslagsbreytingum og var samþykkt ályktun á grundvelli hennar og greidd atkvæði um nokkrar tillögur að neyðarályktun þar sem loftslagsbreytingarnar urðu fyrir valinu. Enn fremur var haldinn kvennafundur í tengslum við þingið þar sem rætt var um konur og réttindi þeirra, möguleika þeirra á atvinnu og aðlögun, m.a. vegna mansals og ofbeldis. Á þinginu sjálfu voru 1.500 þátttakendur, þar af um 750 þingmenn og 33% konur.

Í ályktun um loftslagsbreytingar voru þingmenn hvattir til að beita sér fyrir þjóðarátaki til að berjast gegn loftslagsbreytingum og eftir mikilvægi þess áréttað um aðgerðir aðildarríkjanna við að innleiða Parísarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, en almenn umræða fór síðan fram um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum. Var sjónum beint að hlutverki þjóðþinga við að stuðla að friði og framþróun, eins og fyrr sagði. Undirrituð tók þátt í umræðunum fyrir hönd Íslandsdeildar og lagði sérstaka áherslu á mikilvægi jafnréttis og menntunar þegar horft væri til framþróunar í tækni og nýsköpunarmálum, og nánar má lesa um það í skýrslunni.

Á þessu þingi var einnig lögð fram og kynnt afar áhugaverð skýrsla um niðurstöður viðamikillar rannsóknar Alþjóðaþingmannasambandsins og Evrópuráðsþingsins á kynjamismunun og kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn konum í þjóðþingum í Evrópu. Niðurstöður rannsóknarinnar voru frekar sláandi þar sem 85% þingkvenna sem tóku þátt í rannsókninni höfðu upplifað einhvers konar kynbundið, andlegt ofbeldi á þjóðþingum. Þá eru þingkonur undir 40 ára líklegri til að verða fyrir áreiti og kvenkyns starfsmenn þinga verða frekar fyrir kynferðislegu ofbeldi en þingkonur. Þá er í meiri hluta þjóðþinga ekki farvegur fyrir konur til að tjá sig um ofbeldið, en skýrslan er sú fyrsta í röð svæðisbundinna rannsókna sem alþjóðasambandið stendur fyrir um kynbundið ofbeldi og áreitni gagnvart konum í þjóðþingum heims. Hún byggist á víðtækum viðtölum við konur frá 45 Evrópuríkjum, þar af 81 þingkonu og 42 voru starfsmenn.

Að lokum voru greidd atkvæði á þingfundi um hvort fram mætti fara sú umræða sem ég fór yfir áðan um hlutverk þjóðþinga við að binda enda á mismunun á grundvelli kynferðis og kynhneigðar og tryggja virðingu fyrir mannréttindum LGBTI-fólks. Tekið var sérstaklega fram að ekki yrði ályktað um málið, heldur færu aðeins fram umræður. Heitar umræður höfðu verið á vorþinginu og stóðu Norðurlöndin saman í að styðja þessa tillögu en hún var felld í atkvæðagreiðslunni með 636 gegn 499 atkvæðum, en lönd hafa mismunandi fjölda atkvæða eftir stærð. Við greiddum atkvæði með tillögunni ásamt flestum ríkjum Evrópu og verður málið eflaust tekið upp á norrænum fundi sem haldinn verður nú í mars, enda afar sérstakt að samband sem hefur m.a. þann tilgang að stuðla að bættum mannréttindum og lýðræði í heiminum geti ekki tekið umræðu um réttindi LGBTI-fólks.

Næsta þing Alþjóðaþingmannasambandsins verður haldið í Doha, höfuðborg Katar, í apríl í kjölfarið á norrænum samráðsfundi sem fer fram í Ósló í Noregi.

Í skýrslunni má fá yfirlit yfir þær ályktanir og yfirlýsingar sem komu frá Alþjóðaþingmannasambandinu árið 2018.

Undir skýrsluna rita Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir formaður og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.