149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

Evrópuráðsþingið 2018.

528. mál
[15:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir athyglisverða spurningu og fyrir falleg orð í minn garð. Ég kann að meta þau.

Áhrifin sem niðurskurðurinn gæti haft eru kannski sérstaklega hættuleg gagnvart Evrópuráðsþinginu sjálfu, mér þykir líklegt að þar verði niðurskurðarhnífurinn ansi stór. Ástæðan fyrir því að mér finnst það mjög varhugavert er að það er í þinginu sem framkvæmdarvaldinu mætir hvað sterkasta andstaðan, eftirlitið og aðhaldið. Þar eru þjóðkjörnir þingmenn með friðhelgi í sínum störfum og sjálfstæði sem þarf til þess að geta farið til vinaþjóða sinna, tekið út ástandið þegar kemur að lýðræði, mannréttindum eða réttarríkinu og sagt: Heyrðu, vinur minn, þetta er bara alls ekki nógu gott, og geta sagt það án undanbragða, þurfa ekki að standa í stofnanadiplómasíu eða slíku. Niðurskurður mynda veikja þessa gríðarsterku eftirlitsstofnun.

Ég hef áhyggjur af því að þetta sé eitthvað sem mörgum ríkisstjórnum þessara ríkja mislíki ekkert allt of mikið. Ég hef áhyggjur af því að það sé ástæða þess að við heyrum ekki sterkari raddir frá leiðtogum þessara ríkja um að þeir muni bara bjarga þessum 33 milljónum evra sem vantar upp á. Í stóra samhenginu eru þetta smáaurar fyrir þjóðir eins og Þýskaland og Frakkland, það mætti finna þessa peninga í klinkbuddunni þeirra, þannig að það er eitthvað meira á bak við þetta. Það er ekki þannig að þeim finnist fjárhæðin of há til þess að geta hlaupið undir bagga. (Forseti hringir.) Ég óttast að það sé einhver pólitísk afstaða á bak við það að ekki sé gengið í að tryggja að það verði enginn niðurskurður út af þessu.