149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

495. mál
[16:01]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna nýrra laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, en þau lög voru samþykkt á Alþingi síðasta sumar. Lög þessi eru í daglegu tali nefnd persónuverndarlögin og mun ég nýta mér það til styttingar í máli mínu hér eftir.

Frumvarpinu er ætlað að gera nauðsynlegar breytingar á ákvæðum nokkurra laga sem falla undir málefnasvið hins nýja félagsmálaráðuneytis til að tryggja að vinnsla persónuupplýsinga á grundvelli hlutaðeigandi laga samræmist ákvæðum nýju persónuverndarlaganna. Ég vil í upphafi leggja áherslu á mikilvægi þess að gera greinarmun á þeim áhrifum sem nýju persónuverndarlögin kunna að hafa í för með sér, svo sem á störf opinberra stofnana, og þeim áhrifum sem efni frumvarpsins kann að hafa í för með sér á störf viðkomandi stofnana. Þá er einnig rétt að árétta að frumvarpinu er ekki ætlað að hafa í för með sér breytingar hvað varðar þá þjónustu sem hlutaðeigandi stofnunum er ætlað að veita.

Virðulegur forseti. Undir málefnasvið ráðuneytisins falla ýmis lög sem varða mikilvæg réttindi og skyldur almennra borgara. Á grundvelli þeirra laga þarf oft og tíðum að vinna með persónuupplýsingar einstaklinga sem geta verið viðkvæmar, svo sem upplýsingar um heilsufar þeirra. Á það m.a. við í þeim tilvikum þegar kanna þarf hvort skilyrði fyrir ýmiss konar félagslegri aðstoð séu uppfyllt. Að mínu mati er mikilvægt að vandað sé til verka þegar unnið er með slíkar upplýsingar, auk þess sem mikilvægt er að sú vinna sé í samræmi við nýju persónuverndarlögin og er það ástæða þess að frumvarp þetta er lagt fram nú.

Um er að ræða breytingar á níu lagabálkum, þ.e. lögum um almannatryggingar, lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um umboðsmann skuldara, lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, lögum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Ég tel ekki tilefni til að reifa sérstaklega efni hvers ákvæðis frumvarpsins fyrir sig en það er sameiginlegt með þeim öllum að þau þykja nauðsynleg í kjölfar gildistöku nýju persónuverndarlaganna.

Ákvæðin eiga það jafnframt sameiginlegt að gera ráð fyrir að þær stofnanir sem starfa á grundvelli hlutaðeigandi laga afli aðeins þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar geta talist svo þær geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu hverju sinni. Jafnframt er í frumvarpinu lögð rík áhersla á að áður en upplýsingaöflun á sér stað hafi hlutaðeigandi einstaklingar fengið upplýsingar um fyrirhugaða upplýsingasöfnun sem og frekari upplýsingar sem teljast viðeigandi hverju sinni til að tryggja sanngjarna og gegnsæja vinnslu gagnvart einstaklingunum.

Í frumvarpinu er þannig gert ráð fyrir að skýrð verði nánar sú lagastoð sem fyrir er í hlutaðeigandi lögum fyrir vinnslu upplýsinga sem nauðsynlegar þykja svo að þær stofnanir sem starfa á grundvelli laganna geti sinnt lögbundnum skyldum sínum. Á sama tíma verði tryggt að þeir einstaklingar sem í hlut eiga hverju sinni séu upplýstir um vinnslu upplýsinganna. Þess ber að geta að þó að umræddar breytingar þykir nauðsynlegar í kjölfar gildistöku nýju persónuverndarlaganna er ekki gert ráð fyrir að vísað sé sérstaklega til þeirra laga í þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir á hlutaðeigandi lögum. Ástæðan er sú að ákvæði nýju persónuverndarlaganna gilda almennt um alla vinnslu persónuupplýsinga og er því gert ráð fyrir að öll vinnsla persónuupplýsinga á grundvelli þeirra laga sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði breytt þurfi áfram að vera í samræmi við meginreglur persónuverndarlaga eins og verið hefur þrátt fyrir efni frumvarpsins.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp var í grunninn unnið í framhaldi af nýju persónuverndarlögunum. Sá sem hér stendur er ekki sérfræðingur í þeim lögum en lögð er áhersla á að við þessa innleiðingu sé einungis horft á þær breytingar sem þurfi að gera af þeim sökum og er mér ekki kunnugt um að aðrar breytingar séu í frumvarpinu en þær sem byggja á þessum persónuverndarlögum.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu.