149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

lóðaframboð.

487. mál
[16:41]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að taka þetta mál upp. Ég held að þarna séum við komin að kjarnanum í því sem snýr að framboðinu og eftirspurninni. Það er alveg sama hvað við gerum með stuðningi við fyrstu kaupendur eða stuðningi við fólk á leigumarkaði og annað, ef við erum ekki með nóg framboð sem í rauninni samsvarar eftirspurninni til næstu ára og áratuga gefur augaleið að fólk lendir í vandræðum á fasteignamarkaði. Þá hækkar verðið upp úr góðu hófi og jafnframt dregur það úr hvatanum til að menn byggi hagkvæmt. Þá er bara ekki eins mikil samkeppni á markaðnum og raun ber vitni.

Margumræddur átakshópur sem skipaður var með aðilum vinnumarkaðarins fór m.a. ofan í þetta. Umræður hafa verið á talsverðu reiki um það hversu mikið væri í pípunum og hver eftirspurnin væri raunverulega. Við fengum með okkur í lið sveitarfélögin í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu og á vaxtarsvæðunum í kringum Reykjavík til að átta okkur á því hvað væri þar í pípunum. Þegar ég tala um kjarna- og vaxtarsvæði er ég að tala um Suðurnesin, Akranes, Ölfus, Hveragerði og eftir atvikum hugsanlega í kringum Akureyri. Niðurstaðan er sú að heildaríbúðaþörf á landsvísu til ársins 2040, að meðtalinni þeirri óuppfylltu íbúðaþörf sem er núna, í upphafi árs 2019, sem áætlað er að sé um 5.000 íbúðir, er metin um 38.000 íbúðir til ársins 2040.

Þegar við erum að meta þörfina eftir íbúðafjölda skiptir gríðarlega miklu máli hver þróunin verður í efnahagsmálum og efnahagslífinu varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu, varðandi það hvort við sjáum sambærilega þróun áfram varðandi fleiri aðflutta en brottflutta o.s.frv.

Þegar við skoðum fjölda íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu ásamt heildarfjölda íbúða sem má byggja á mögulegum byggingarsvæðum þar sem deiliskipulagsvinnu er ýmist lokið eða hún komin af stað eru það um 25.000 íbúðir. Ef þróunarsvæði eru talin með er heildarfjöldi íbúða um 39.000, þ.e. lóðir með þróunarsvæðum.

Þá á eftir að taka tillit til mögulegra byggingarsvæða utan höfuðborgarsvæðisins en þar er gert ráð fyrir minnst 6.000 íbúðum samkvæmt deili- og aðalskipulagi á byggingarsvæðum í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins sem veittu átakshópnum upplýsingar um lóðaframboð. Rétt er að geta þess að þau sveitarfélög sem veittu upplýsingar eru Vogar, Reykjanesbær, Ölfus, Akureyri og Akranes.

Heilt á litið má kannski segja að svarið við spurningunni til hv. þingmanns sé: Já, heilt á litið virðist sem nægt framboð sé á byggingarsvæðum á landsvísu til að mæta íbúðaþörf til ársins 2040. En varðandi framboðshliðina er, rétt eins og varðandi íbúðaþörfina, óvissa varðandi aðflutta og brottflutta og þetta er líka bundið við hvort einhverjar tafir verði á skipulagi. Í einhverjum tilfellum er um einkalönd að ræða þannig að þarna eru líka óvissuþættir.

Niðurstaðan er alltént sú að miðað við það sem er í pípunum varðandi lóðir og lóðaframboð ætti okkur að geta tekist að tryggja hér stöðugleika á milli framboðs og eftirspurnar þegar kemur að lóðum.

Þá er auðvitað eftir öll umræðan um það hvernig þetta land verður skipulagt. Verða þarna smærri íbúðir eða stærri íbúðir? Við erum með aðra fyrirspurn á eftir sem fer síðan út í fleiri þætti.

Þetta er heilt yfir niðurstaðan. Ef ríki og sveitarfélög geta unnið þétt saman á þessum árum, til ársins 2040, ætti okkur að takast að mynda stöðugleika á milli framboðs og eftirspurnar þegar kemur að lóðaframboði sveitarfélaga í landinu.