149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

endurgreiðslur vegna kaupa á gleraugum.

507. mál
[17:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég hef lagt fyrir ráðherra fyrirspurn um upphæðir endurgreiðslna vegna kaupa á nauðsynlegum gleraugum fyrir sjúkratryggða einstaklinga samkvæmt reglugerð nr. 1155/2005 og spyr hann hvort hann hyggist endurskoða þær. Ég spyr hann einnig hvort ráðherra hyggist endurskoða fyrirkomulag endurgreiðslunnar þannig að miðað verði við tiltekinn hundraðshluta af kaupverði í stað fastrar krónutölu.

Ég hef þrisvar sinnum lagt fram frumvarp um breytingu á lögum er varðar endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa barna. Þar hef ég fyrst og fremst verið að horfa til þess að sérstaklega yngstu börnin njóti þess að fá gleraugu án mikils tilkostnaðar, þ.e. þau sem þurfa á þeim að halda sem læknisfræðilegri meðferð. Þetta er fámennur hópur barna. Augu þeirra eða sjón þroskast ekki eðlilega nema þau noti gleraugu, sem eru gjarnan dýr. Þau börn þurfa slík gleraugu til að öðlast eðlilega sjón, má segja að þau sé ekki beinlínis hjálpartæki heldur hreinlega nauðsynleg.

Við erum að tala um mjög fámennan hóp á bilinu fjögurra til átta ára eða svo. Við þekkjum það sem eigum börn sem nota gleraugu að ýmislegt getur komið fyrir. Þó að gleraugnaumgjarðir séu jafnvel mjúkar og allt það skemmast þær oft og sjónglerin einnig þegar um ung börn er að ræða.

En hér er ég meira að spyrja hæstv. ráðherra um þetta — það er auðvitað alveg ótækt, ef við hugsum um það, að alveg frá því 2005 hefur reglugerðin ekki verið uppfærð, þ.e. endurgreiðsluliðurinn. Ég vona að ráðherrann sjái fyrir sér að endurgreiða þetta.

Í sambandi við ákvæði reglugerðarinnar kom fram í svari sem ég fékk frá ráðherra fyrir einhverju síðan, forvera hæstv. núverandi ráðherra, að þetta hafi komið til umræðu meðal starfsmanna Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar, sem starfa fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga við ráðuneytið, þar sem líka hafa verið ræddar útfærslur breytinga við barnaaugnlækna. Það eru í kringum 80% foreldra eða forráðamanna sem fá endurgreiðslur upp á 7.000 kr. Það er nú allt og sumt. Sem er náttúrlega frekar lítið. Viðtal var við konu, fyrir um einu og hálfu ári, sem á ungan dreng og tók hún það saman að hún hafi verið búin að eyða milljón í gleraugu á frekar stuttum tíma.

Ég spyr hæstv. ráðherra til viðbótar, af því að talað var um það í því svari sem ég fékk þá að skoða ætti stöðu þessa hóps með tilliti til hækkunar á endurgreiðslu og (Forseti hringir.) samkvæmt því sem kemur fram í svarinu átti sú vinna að fara fram í ráðuneytinu. Mig langar að bæta þeirri spurningu við hvort sú vinna hafi farið af stað.