149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í desember sl. lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra er varðar Sjúkratryggingar Íslands og persónuvernd. Hæstv. ráðherra svaraði mér um miðjan janúar á þskj. 819 og mér finnst full ástæða til að vekja athygli þingheims á því svari. Ég spurði ráðherra hvaða gögn eða gagnagrunn Sjúkratryggingar Íslands noti og svarið við því er gagnagrunnur þjóðskrár. Þá spurði ég hverjir fengju bréf þegar um væri að ræða málefni barna og hvort þau væru stíluð á báða forráðamenn eða eingöngu á lögheimili barnsins og þá hvern.

Svar ráðherra byggir á upplýsingum frá Sjúkratryggingum en það er, og ég bið þingheim að taka eftir, stílað á þann sem skýrir fjölskyldunúmeri barnsins en það er elsti einstaklingur í fjölskyldu samkvæmt þjóðskrá. Með öðrum orðum fær elsti einstaklingur á lögheimili barnsins bréf. Þannig er ekki víst að sá aðili fari með forsjá barns og því fá forsjárforeldrar ekki endilega bréf er varða börn þeirra. Elsti aðili á heimili getur verið fósturforeldri, amma, afi eða bara einhver annar.

Virðulegur forseti. Þetta er algjörlega óboðlegt.

Þá spurði ég ráðherra hvort slíkt verklag samræmdist persónuverndarlögum, sem ég get engan veginn séð að það geri. Í svarinu kemur í ljós að Persónuvernd hafi gert athugasemdir við framkvæmd Sjúkratrygginga og það fyrir alllöngu. Persónuvernd hefur jafnframt bent á lausnir en í niðurlagi svars ráðherra segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands hefur stofnunin skoðað lausnir vegna athugasemda Persónuverndar en ekkert hefur verið ákveðið nánar í þeim efnum. Ráðuneytið hefur áréttað athugasemdirnar við Sjúkratryggingar Íslands.“

Virðulegur forseti. Við því verður að bregðast. Það mál sem ég vek hér athygli á er eitt af fjölmörgum vandamálum sem kerfið annaðhvort býr til eða leysir ekki úr þegar um er að ræða sameiginlegt forræði foreldra yfir börnum sínum eftir skilnað. Dæmin og erfiðleikarnir sem foreldrar í þeirri stöðu glíma við eru æðimörg. Af því tilefni hef ég óskað eftir því að eiga sérstakar umræður við hæstv. (Forseti hringir.) barnamálaráðherra um málaflokkinn.

Virðulegur forseti. Við getum ekki látið sleifarlag sem þetta dæmi sýnir einkenna nálgun okkar á málefni fjölda fjölskyldna í landinu. Því þarf að breyta.