149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Síðustu ár hefur verið sívaxandi umræða um mikilvægi þess að bændur geti boðið upp á fjölbreytt vöruframboð. Smekkur neytenda á kjöti er breytilegur. Þótt sumir séu fullkomlega ánægðir með lambalæri af handahófi vilja aðrir geta valið sér lambakjöt sem fengið hefur að hanga ákveðið lengi o.s.frv. og eru jafnvel tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir þá vöru. Þó að enginn haldi því fram að hægt sé að leysa vandamál íslenskrar sauðfjárræktar með því einu að gera sauðfjárbændum auðveldara fyrir að slátra heima, eins og ég óskaði eftir svörum um frá ráðherra fyrir jólin, er nýsköpun á borð við örsláturhús hluti af lausninni, ekki síst með tilkomu fleiri ferðamanna.

Það sem við stöndum hins vegar frammi fyrir er hið hamlandi regluverk sem er í kringum slátrun. Það er viðamikið og flókið þannig að erfitt hefur verið að fá öll tilskilin leyfi. Lögin um heimavinnslu og slátrun eru flókin og hefur hár heimtökukostnaður hjá mörgum sláturhúsum verið afar íþyngjandi, eins og fram kom í bréfi til okkar þingmanna á dögunum frá bændum í Skagafirði. Sá hái heimtökukostnaður gerir það að verkum að erfiðara er að stunda nýsköpun með vöruþróun. Ég tel að stóru sláturhúsin geri sjálfum sér óleik með slíkri verðlagningu. En stjórnvöld bera líka ábyrgð.

Nú stendur yfir vinna við að skipa svokallaða áhættumatsnefnd. Drög að reglugerð voru sett í samráðsgátt stjórnvalda fyrir jól. Slík nefnd hefur það að markmiði að veita vísindalega ráðgjöf um matvælaeftirlit. Það segir sig eiginlega sjálft að eitthvað er brogað í regluverkinu þegar bændum er heimilt að slátra til heimanota en ekki heimilt að selja kjöt. En auðvitað þarf að sjá til þess að neytendavernd sé öflug. Ég fagna því þessari vinnu og tel að hún verði mikilvæg í því að koma þeim málum í betra horf.

Í samtali sem ég átti um þetta mál við ráðherra kom fram að verið væri að horfa til Þýskalands þar sem landsbundnar reglur heimila það sem kallað hefur verið örsláturhús. Ég mun fylgja málinu eftir því að það á að vera hlutverk stjórnvalda að greiða götu íslensks landbúnaðar svo að hann geti boðið upp á fjölbreyttara vöruúrval, um leið og hugað er að heilnæmi matar.