149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja frá því að á dögunum fór ég í Slysavarnaskóla sjómanna. Ég kynnti mér það starf sem fram fer um borð í Sæbjörginni hér í höfninni við hliðina á okkur. Ég held að það sé gott fyrir okkur þingmenn að kynna okkur það sem fer fram í samfélaginu og ekki síst það sem varðar öryggismál sjómanna.

Það er stórmerkilegt að upplifa það sem fer fram um borð í þessu gamla flutningaskipi. Markmið skólans er að efla öryggisfræðslu sjómanna sem uppfyllir íslenska og alþjóðlega staðla. Þar er unnið samkvæmt samþykkt STCW, sem er alþjóðleg viðmiðun.

Um borð í Sæbjörgu er fullkomin aðstaða til bóklegs náms og verklegrar kennslu, til að læra undirstöðuatriði í skyndihjálp, sjóbjörgun, eldvörnum og öryggismálum. Það var alveg stórmerkilegt að fá að taka þátt í þessu með fjölda sjómanna, en allir sjómenn á íslenskum fiskiskipum sem eru lögskráðir þar verða að hafa farið í gegnum þennan skóla.

Það er mjög merkilegt að þetta er eini skólinn í öllum heiminum þar sem allir nemendur fá reynslu af því að vera hífðir upp í þyrlu. Að því búa aðrir skólar ekki vegna þess að víðast hvar sér herþjónustan um þyrlur og almennir borgarar mega ekki fara þar um.

Það sem mér finnst líka mjög merkilegt er hversu hæfir kennarar eru við þennan skóla, reynslumiklir sjómenn sem lent hafa í ýmsu og miðla af þeirri miklu þekkingu sem þeir búa yfir og því sem þeir hafa upplifað. Það er ef til vill þekking sem fæstir kæra sig um að hafa en kemur þeim afar vel sem sækja þennan skóla. Það hefur orðið til þess að hver einasti sjómaður hefur farið þar í gegn og við getum horft mörg ár aftur í tímann þar sem enginn sjómaður hefur látist við störf.