149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Skömmu fyrir síðustu jól síðustu samþykkti Alþingi að veita ohf-i í ríkiseigu, Íslandspósti, 1,5 milljarða að láni. Þetta var gert í því skyni að styðja við lausafjárvanda fyrirtækisins og gera það rekstrarhæft. Lánveitingunni fylgdu engin skilyrði um það hvernig ætti að taka á fjárhagsvanda fyrirtækisins. Ríkisendurskoðun tók undir þá skoðun sem nokkrir þingmenn létu í ljós, að í sjálfu sér væri ekki forsvaranlegt að lána fyrirtækinu 1,5 milljarða úr ríkissjóði, eða rétta því 1,5 milljarða úr ríkissjóði, án þess að fyrir lægi hvernig ætti að nýta þá fjármuni til að bæta úr í rekstri fyrirtækisins.

Nú er komið í ljós að í ársbyrjun 2018 fengu allir starfsmenn Íslandspósts launabætur vegna þess að svo vel hafði gengið í rekstrinum árið á undan, réttara sagt um hálfu ári áður en fyrsta lán ríkissjóðs til fyrirtækisins kom fram í fyrra. Það hefur líka komið fram að laun forstjóra fyrirtækisins hafa hækkað um 40% á fjórum árum, stjórnarlaun á sama tíma um 65%.

Auðvitað verð ég að fagna því að lán sem ríkissjóður veitir fyrirtækinu komi einhverjum í góðar þarfir. En ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst þetta ekki eðlilegt. Mér finnst þetta rangt og það rennir stoðum undir það sem við höfðum nokkur uppi í fyrra fyrir jólin, að slík lánveiting væri ekki forsvaranleg miðað við þær forsendur sem þá lágu fyrir. Af þeim fréttum sem nú eru að berast hefur því miður komið í ljós að við sem móuðumst við því að þetta yrði gert (Forseti hringir.) höfðum rétt fyrir okkur.

Mér finnst algjörlega nauðsynlegt á þessum tímapunkti að gerð verði gangskör að því að komast að því hvernig þetta ohf-fyrirtæki ætlar að bæta rekstur (Forseti hringir.) sinn á næstunni.