149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast að íslenskur almenningur hefur mjög takmarkaðan aðgang að því starfi sem unnið er innan veggja Alþingis. Á meðan við bíðum enn í ofvæni eftir nýrri stjórnarskrá, byggðri á frumvarpi stjórnlagaráðs þar sem mjög mikilvægt ákvæði um málskotsrétt þjóðarinnar er að finna, væri mjög óskandi að við sem hér störfum myndum leggja aukna áherslu á það að nýta tæknina sem til er til að veita almenningi aðgang að störfum okkar innan þingsins og umhverfinu sem við störfum í.

Víðast hvar í heiminum eru tækninýjungar að ryðja sér til rúms í þingum ólíkra landa. Innleiðing nýrrar tækni breytir bæði starfsháttum þingsins sem og menningunni innan þess. Þing sem nýta sér tæknilausnir geta tengst þeim sem þau starfa fyrir, almenningi í landinu, á hátt sem hefði verið óhugsandi fyrir jafnvel örfáum árum. Með tilkomu samfélagsmiðla aukast möguleikar þinga til að virkja almenning og sækja til hans dómgreind.

Eins og áður segir bíðum við enn eftir nýrri stjórnarskrá sem inniheldur þennan málskotsrétt þjóðar, sem hefði ef til vill komið sér vel núna þegar verið er að ræða samgönguáætlun.

Þegar farið er inn á vef breska þingsins er hægt að sækja ýmsar upplýsingar um störf þingsins, þingmanna og jafnvel hægt að fara í stafrænar heimsóknir. Alþingi ætti að setja fordæmi sjálft og gera svipað og breska þingið.

Í desember sl. var miðstöð tækninýsköpunar á þingi hleypt af stokkunum á heimsþingi IPU um e-þing. Þar komu að borðinu Brasilía, Chile, Portúgal, Sambía, auk Evrópuþingsins sjálfs. Það ætti að vera hlutverk okkar að ganga fremst í stafræningu á verkum okkar og gera vinnustað okkar sýnilegri og aðgengilegri stað fyrir alla, hvort sem þeir búa á Eskifirði, Siglufirði, Reykjavík eða Delí. Við þurfum að leyfa fólki að fá innsýn í það sem við gerum hér og hvernig við vinnum. Þetta er hægt að gera með tilkomu tækninnar, eins og áður segir, og einfalda verkferla og gera þá skiljanlegri fyrir þá sem þeir skipta máli. Þetta er eitthvað sem við ættum öll að taka til okkar.