149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Nú standa yfir kjaraviðræður í landinu. Þær eru á viðkvæmu stigi og kallað er eftir aðkomu stjórnvalda til að hægt sé að leysa kjaraviðræðurnar með þeim hætti að launþegar geti við unað og að þjóðfélagið standi undir þeim hækkunum sem umsamdar verða. Það hefur verið kallað eftir því í þessari umræðu að ríkisvaldið, stjórnvöld, komi með innspil eða útspil í þessar umræður sem gætu orðið til þess að leysa málin. Seðlabanki Íslands lagði sitt til málanna í dag með því að halda óbreyttum stýrivöxtum inn í kólnandi hagkerfi og um leið lét seðlabankastjóri í það skína að Seðlabankinn hefði bæði meðul og markmið til að hækka vexti ef kjaraviðræður þróuðust ekki eins og Seðlabankanum væri hugleikið.

Í Morgunblaðinu í morgun er vitnað í formann VR, með leyfi hæstv. forseta:

„Það liggur alveg fyrir að þessar sífelldu hótanir um vaxtahækkanir, og í rauninni það að halda hér uppi þessu gríðarlega háa vaxtastigi, er ákveðinn þrýstingur á kaupgjaldið vegna þess að fólk þarf einhvern veginn að standa undir því að búa við þessi lífskjör, þessa fáránlegu vaxtastefnu …“

Herra forseti. Seðlabankinn tekur ekki þátt í því að laga þetta ástand. Ríkisstjórnin virðist ekki vera að gera neitt til þess að taka t.d. verðtryggingu af húsnæðislið þannig að ríkisstjórnin og Seðlabankinn eru ekki bara að skila auðu í þessari baráttu, heldur kasta sprekum á eldinn. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem litli seðlabankastjórinn með eldspýturnar kemur fram með bombur eða bensínsprengjur inn í kjaraviðræður. (Forseti hringir.) Nú væri rétti tíminn að lækka stýrivexti duglega til að liðka til fyrir því að hér verði gerðir hagfelldir kjarasamningar.