149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða ræðu. Fjallað var um vegaframkvæmdirnar sem eru brýnasta nauðsyn varðandi öryggi og umferðarþunga og ýmislegt svoleiðis. Það hefur komið fram í greiningum, t.d. fyrir borgarlínuna, að þrátt fyrir að við förum í 100 milljarða kr. vegaframkvæmd á höfuðborgarsvæðinu munu umferðarþungi og meðalferðatími samt aukast.

Það hefur líka komið fram hér í umræðunni að undirstaða veggjaldanna er sú að stytting verði á ferðatíma sem kemur þeim til góða sem eru að keyra og að það að borga veggjöldin muni ekki kosta eins mikið og það hefði kostað ef ekki hefði verið farið út í framkvæmdirnar. En eins og bent hefur verið á eru þessar framkvæmdir algerlega nauðsynlegar. Það er ekki hægt að tala um að gera ekki neitt. Þar af leiðandi er ekki hægt að miða við þá grunnsviðsmynd að ef við gerum ekki neitt yrði kostnaðurinn svo rosalega mikill og við græddum svo mikið á því að fara í veggjaldaframkvæmdir með 100 milljörðum. Við verðum a.m.k. að fara í þessa 50 sem talað var um í þeirri greiningu.

Aðeins varðandi veggjöldin: Hv. þingmaður nefndi 600 kr. til og frá Selfossi. Ég býst þá við að hv. þingmaður sé að vísa í meðalgjaldið sem var notað í skýrslu sem var skilað til samgönguráðherra þar sem talað var um meðalgjald upp á 300–600 kr., meðalgjald fyrir hverja einstaka ferð. Þar sem umfang framkvæmdanna er svona 1/3 minna en í þeirri skýrslu eru það ekki 300–600 kr. heldur 200–400 kr. fyrir hverja ferð að meðaltali. Það er sagt að taka eigi gjaldið upp í lok tímans. Miðað við greininguna ættu það þá að vera 400 kr. Það gætu verið allt upp í 800 kr. til og frá Selfossi, báðar leiðir.