149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:22]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að gæta betur að tímamörkum eftir ábendingar forseta. Ég þurfti ekkert að leggja á mig mikla vinnu til að vera andvígur þessari útfærslu af veggjöldum af því að hér er einfaldlega verið að fjármagna almennar vegaframkvæmdir sem hefur verið lofað hér árum, og jafnvel áratugum, saman í einhverjum tilvikum, án nokkurrar umræðu um veggjöld til að fjármagna þær. Þetta er bara partur af skyldu ríkisins til að sinna grunninnviðum.

Við skulum þá bara tala heiðarlega um það ef við þurfum aukna fjármögnun til að geta sinnt þeirri skyldu. Það þarf líka að tala um viðhald á vegunum þar sem Vegagerðin sjálf metur það sem svo að uppsöfnuð viðhaldsþörf vega séu 60 milljarðar. Við verjum 10 milljörðum á ári, tæpum, í viðhald. Þá skulum við bara tala um það ef meira fjármagn vantar inn í þetta kerfi í heild og hvernig við ætlum að standa að framtíðargjaldtöku á umferð.

Ég veigra mér ekkert við þá umræðu og ég færist heldur ekkert undan því að styðja veggjöld þar sem ég tel þau geta átt vel við, þar sem um er að ræða framkvæmdir sem ekki er á dagskrá að fara í að öðrum kosti og hafa í sér þennan beina ábata fyrir notendur að stytta verulega leið eða spara kostnað að öðru leyti. Það á bara ekkert við þær framkvæmdir sem hér er verið að leggja undir í þessu samhengi. Tölum bara um heildarfjármögnun kerfisins.

Hversu langan tíma þarf? Ég held að við þurfum alla vega að sjá til botns — hvað kostar þetta nákvæmlega, hvernig verður það útfært, hvert verður endanlegt veggjald? — áður en þetta er lagt upp með þessum hætti. Ég myndi bara vilja taka utan um þennan samgöngupakka í heild sinni og segja: Hér er umfangið. Ég nefndi hér áðan að sennilega þyrfti um 110 milljarða ef taka ætti stofnæðarnar að og frá höfuðborgarsvæðinu með og nauðsynlegar borgarlínuframkvæmdir. Við finnum þá bara skynsamlega leið til að fjármagna það ásamt öðrum þeim nauðsynlegu vegabótum sem hér er rætt um.

En það er líka allt í lagi að gefa kjósendum aðeins rýmri tíma til að átta sig á því að tveir flokkar af þremur í ríkisstjórn hafa hafnað þessari leið þar til skyndilega nú.