149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:26]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið síðara sinni. Stutta svarið við síðustu spurningunni er: Nei, ég hélt því ekki fram að neinu hefði verið endurraðað. Allar mikilvægustu framkvæmdirnar voru undanskildar, bæði hjá hæstv. samgönguráðherra og hjá meiri hluta nefndarinnar. Það er bara sama lélega forgangsröðunin í verkefnunum þar á milli.

Varðandi hugmyndir um fjármögnun: Já, ég hef lagt fram hugmyndir um hvernig fjármagna mætti þetta með öðrum hætti og það væri býsna auðvelt. Ef við seldum þriðjunginn af því hlutafé sem ríkissjóður á bundið í þessum tveimur viðskiptabönkum, Íslandsbanka og Landsbanka, mætti ætla að það væru um 100 milljarðar, hið minnsta. Það myndi duga fyrir öllum þeim framkvæmdum sem hér eru nefndar og að ljúka borgarlínufjármögnun með viðunandi hætti. Það tekur ekki svo langan tíma að byrja að hreyfa sig í þessum bönkum af því að við erum að tala hér um framkvæmdir sem munu standa yfir næstu fimm árin, hið minnsta, ef ekki lengri tíma.

Svo má auðvitað ræða þetta í tengslum við fjármálaáætlunina, auðvitað á að gera ráð fyrir þessum framkvæmdum í umræðum um fjármálaáætlun og það hefur ekki verið gert til þessa.