149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:27]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það fer ekki fram hjá þeim sem aka um þjóðvegi landsins og eru fastir í umferðinni hér á suðvesturhorninu hversu brýn þörf er á stóru átaki í uppbyggingu samgöngukerfisins. Það er samt sem áður svolítið undarlegt að vera allt í einu núna að ræða þessar hugmyndir án þess að hafa ímyndað sér að til þeirra hugmynda sem nú liggja á borðinu kæmi. Jú, frábært að flýta framkvæmdum, allt í lagi að segja að áætlanir til 15 ára hafi verið fullfjármagnaðar, en þær eru það sannarlega ekki. Þegar að því kemur að við þörfnumst þess að flýta framkvæmdum, þegar það er í raun nauðsynlegt að flýta framkvæmdum, þá snýst það enn og aftur um peninga.

Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir hans ágætu ræðu hér áðan. Hann hafði margt fram að færa sem ég get tekið undir. Ítrekað er talað um hvernig fjármagna eigi framkvæmdina. Þessi nýja hugmynd um vegaskattana er eins og blaut tuska, finnst mér, í andlitið á almenningi í þessu landi. Hún er í raun klædd í kjól Sjálfstæðisflokksins algerlega frá toppi til táar.

Það er furðulegt að horfa upp á það á 20 ára afmæli Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að hún skuli, og með forustu í ríkisstjórn, taka það í mál að við séum á þeim stað núna að vera að ræða um auknar álögur á almenning í landinu. Skattar og aftur skattar. Það má kalla það veggjald, það má kalla það toll, það má kallað það hvað sem er. Staðreyndin er sú að endalaust er leitað logandi ljósi til þess að bæta álögum á almenning í landinu, almenning, sem þegar býr við fátækt, almenning sem hefur ekki efni á því að kaupa fína rafmagnsbílinn, almenning sem keyrir á gömlu bensíndollunni, sem mengar þó ekki brotabrot á við þau 66.000 tonn af kolum sem verið er að brenna á Bakka á hverju einasta ári, eða þau 45.000 tonn af viði sem þarf að flytja inn af skógum heimsins til að brenna í þessi gæluverkefni á Bakka.

Það er allt í lagi að tala um kolefnisgjaldið sem gefur okkur ansi marga milljarða á hverju einasta ári. Það er búið að hækka það ansi ríflega, af því að það er alltaf verið að tala um að draga úr mengun. En í hvað fer allt þetta fjármagn, kolefnisgjaldið? Hvar eigum við að fá peningana? Bankaskatturinn upp á 7 milljarða, veiðigjöldin lækka um 4,3 milljarða, samtals eru það 11,3 milljarðar kr. Nú hefur forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, sá ágæti maður, gefið það út að hann geti ekki betur séð en á árunum 2020–2026 geti Landsvirkjun hæglega greitt arð í ríkissjóð upp á 110 milljarða kr. Ég spyr: Þegar við erum að hugsa um forgangsröðun fjármuna og að vera hagsýn í ríkisbúskapnum, hvers vegna er verið að tala um að taka lán til að flýta framkvæmdum? Af hverju nýtum við ekki þá fjármuni sem við eigum nú þegar og forgangsröðum þeim? Af hverju færum við ekki fjármagnið frá þeim sem eiga það yfir til þeirra sem ekkert eiga? En það besta við það núna, þegar verið er að tala um að taka erlend lán til að framkvæma þessar nauðsynlegu vegabætur okkar, að þá er ekki hægt að afnema krónu á móti krónu skerðingar á öryrkja. Það kostar of mikið, þrátt fyrir að það sé náttúrlega heimsmet. Það er enginn þjóðfélagshópur í öllum heiminum sem sætir slíkum skerðingum og mannréttindabrotum eins og íslenskir öryrkjar gera. En það er nú önnur saga.

Það er líka talað um að öll slysin kosti okkur mikið, ógnin sem vofir yfir kostar okkur um 50 milljarða kr. á ári. Það ríður á að auka öryggi og efla samgöngur. Ég var að tala um Landsvirkjun, ég var að tala um 110 milljarðana sem verið er að tala um að hægt sé að greiða í arð frá árinu 2020–2026. Landsvirkjun hefur jú verið að greiða arð og hún hafði t.d. hagnað, 11,2 milljarða, fyrir rúmu ári. Ríkissjóður hefur notið arðgreiðslna frá Landsvirkjun sem og frá bönkunum sem við eigum saman.

Ég tel að almenningur í þessu landi, þjóðin, vilji fá að nýta það sem við eigum sameiginlega nú þegar og er að skapa arð. Hún er ekki að hugsa um fyrsta stig í einkavæðingu samgangna í landinu. Hún er ekki að hugsa um einkavæðingu. Hverjir skyldu eiga að maka krókinn á öllu saman? Það er ástæða til þess að taka þetta traustum tökum. Við fengum þetta upp í nóvember síðastliðnum. Allt í einu poppar upp eitthvað sem hugsanlega verður vegaskattur og ég mun aldrei kalla þetta annað en vegaskatt. Ég er algjörlega sammála því sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson nefndi hér áðan, um hina ágætu framkvæmd, Hvalfjarðargöngin. Sú framkvæmd stóð svo sannarlega undir væntingum, enda framkvæmd sem var virkilega þörf og nauðsyn á að fara út í.

Auðvitað var almenningur ekkert sáttur við að fara að borga í Hvalfjarðargöngin. Það var eins með hin ágætu Vaðlaheiðargöng. Það kostar ekki nema nokkur hundruð krónur að fara í gegnum göngin ef keyptar eru 100 ferðir í einu, eða 1.000 ferðir í einu, eða hvernig sem það er. En hverjir geta borgað það? Hverjir geta borgað fyrir ódýrari ferð í gegnum göngin? Þeir sem eiga peningana, ekki þeir sem þá skortir. Það er alveg ljóst. Það er alltaf dýrt að vera fátækur, sérstaklega dýrt á Íslandi að vera fátækur, í einu skattpíndasta landi á jörðinni. Það á að finna upp fleiri skatta nú þrátt fyrir að við eigum sameiginlegar eignir sem gera miklu betur en að standa undir því að byggja upp vegakerfi sem hefur legið í láginni í áraraðir í boði fyrri ríkisstjórna.

Við skulum ekki gleyma því að við fáum hátt í 3 milljónir ferðamanna á ári sem koma hingað og aka þessa vegi. Við skulum ekki gleyma því heldur hvernig vegirnir hafa hrunið undan stórum flutningabifreiðum sem hefur fjölgað gríðarlega á vegunum, eðli málsins samkvæmt þar sem strandsiglingar hafa lagst af. En hvar eru komugjöldin, hæstv. forseti? Hvar eru komugjöldin, t.d. af 2 milljónum ferðamanna? Þó það væri ekki nema 2.000 kr. á hvern þá yrðu það 4 milljarðar. Ef það væru 2,5 milljónir ferðamanna og komugjaldið væri 2.000 kr. yrðu það 5 milljarðar, hvað þá ef það væru 3.000 kr. fyrir 2,5 milljónir ferðamanna, en þá yrðu það 7,5 milljarðar kr. Hvers vegna alltaf að leita í vasa almennings? Hvers vegna alltaf að hlaða frekari byrðum á þá sem síst skyldu þurfa að bera þær?

Ég hef í raun litlu við að bæta. Þetta er bara skýrt. Við vitum að þörfin er brýn. Við vitum að við þurfum tvöföldun við Reykjanesbrautina, tvöföldun alls staðar. Göng út um allt. Við sjáum hvernig samgöngukerfið er á Vestfjörðum. Við vitum að það er ekki einu sinni búið að malbika alla vegi landsins, ekki enn þá árið 2019. Það þarf stórátak sem kostar mikla peninga, en það breytir ekki þeirri staðreynd að við eigum þetta fjármagn. Það eina sem við þurfum á að halda er skilvirk stjórn ríkisfjármála sem forgangsraðar fjármunum okkar í þágu fólksins í landinu, en ekki endalaust í þágu hagsmunaafla sem eiga allan auðinn fyrir.

Áður en við í Flokki fólksins munum á nokkrum einasta tímapunkti samþykkja að ræða um auknar álögur og frekari skatta á landsmenn vildum við gjarnan senda boltann til ríkisstjórnarinnar og biðja þá vinsamlega að skoða málið aðeins betur og sækja fjármagnið þangað sem það er, draga til baka lækkun bankaskatts upp á 7 milljarða, gefa stórútgerðinni hreinlega tækifæri til að greiða fullt verð fyrir aðgang að okkar sameiginlegu auðlind, svo ekki væri meira sagt.

Ég hugsa að þegar upp er staðið ættum við svo mikinn afgang að við gætum sennilega byggt glerþak yfir allan Elliðaárdalinn og plantað þar fullt af pálmatrjám og búið til Kanaríeyjar, eins og virðist vera draumur hv. borgarstjórnar, en svo mörg voru þau orð.