149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. 1%, það er áhugavert. Það á einmitt að lækka tekjuskatt um 1% samkvæmt fjármálastefnu og fjármálaáætlun á kjörtímabilinu. Fyrsta skrefið að því var tekið í fjárlögum síðast þar sem persónuafslátturinn var hækkaður um 500 kr. Það dugar í eina ferð fram og til baka með veggjöldum. Það er áhugavert að heyra hvernig samhengið er í þessu

Annað sem mig langar að spyrja um er niðurgreiðsla varðandi flugið sem er talað um að sé á bilinu 800 milljónir til 1,5 milljarðar á ári. Til prufu alla vega, til að byrja með.

Hvað væri hægt að gera fyrir 800 milljónir til 1,5 milljarða á ári í atvinnu- og þjónustuuppbyggingu víðs vegar um landið, t.d. uppbyggingu heilbrigðiskerfisins úti á landi? 1,5 milljarðar á ári í nýsköpun og nýbyggingar myndi vega ansi mikið, myndi ég halda, upp á móti þessari þjónustu þar sem flogið er væntanlega yfir vegtollana. Við þurfum að fá vegtolla í kringum höfuðborgina. Þeir sem eru lengst úti á landi geta flogið yfir þá á niðurgreiddu verði til að ná í þjónustu sem annars væri kannski hægt að byggja upp fyrir nákvæmlega sama pening.