149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:58]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er leitt ef hv. þingmaður hefur ekki meiri trú á mér en svo að honum detti í hug að ég viti ekki hvað stendur í álitinu. Já, meiri hlutinn leggur til hvaða vegaframkvæmdir verði fjármagnaður með gjaldtöku. Ég var ekki að tala um að það og er það mín sök ef ég hef komið því óskýrt frá mér. Ég er að tala um hvernig nákvæmlega gjaldtökunni verði háttað, hvort það verði tollhlið eða GPS eða hvað það er, sem stór hluti umræðunnar hefur snúist um og töluvert á undan því sem eðlilegt er að mínu mati. Það er það sem ég á við. Tökum umræðu þegar komnar eru einhverjar tillögur um það hvernig við förum að því að fjármagna borgarlínuna, sem ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um að sé nauðsynleg fyrir höfuðborgarsvæði. Það er í mínum huga úrvinnsluatriði hvernig er innheimt.

Verði það ekki gert með sérstakri gjaldtöku óttast ég að það verði töf og allnokkur bið á því að við sjáum borgarlínuna. Ég ítreka að fyrir mér er hún alfa og omega í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.

Meiri hlutinn leggur áherslu á hvernig gjaldtöku verði háttað og hvaða vegaframkvæmdir verði fjármagnaðar. Það er svo önnur umræða sem við þurfum að fara í hvernig gjaldtaka til framtíðar af umferðinni verður. Það tökum við allt á réttum tíma. Það er alveg skýrt að í haust mun koma fram endurskoðun á samgönguáætlun. Í mínum huga er nauðsynlegt að þar verði gríðarlega mikil áhersla á almenningssamgöngur og hvernig hægt sé að byggja þær upp verði þessar tillögur að veruleika.