149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:02]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Stundum er það þannig að maður þarf að heyra hlutina tvisvar og þrisvar og stundum oftar.

Ég er sammála hv. þingmanni um ábatagreininguna, hún er mikilvæg. Eins og hv. þingmaður leggur dæmið upp á sá samfélagslegi ábati sem kemur til af framkvæmdunum að duga og ekki er hægt að rengja það. Þegar ég horfi framan í það að fara í sértæka gjaldheimtu hef ég hins vegar meiri áhyggjur af hugtaki sem hv. þingmaður hefur oft notað og ég er hrifinn af, sem er innviðaskuld. Ef maður horfir á athyglisverðar tölur í ríkisreikningi þar sem við erum farin að eignfæra vegakerfið og miðað við sveltið síðastliðinn áratug og þá aukningu sem er fram undan í umferð hef ég áhyggjur af því að ef við hugsum það ekki í einhverjum öðrum lausnum haldi sú innviðaskuld áfram að hlaða utan á sig. Það er í raun og veru mun verra dæmi en ágætisdæmið um ábatann, sem er vissulega rétt, vegna þess að bara afskriftirnar af 800 milljarða vegakerfi í eignfærslu 2017 eru 9,4 milljarðar. Við sjáum það að við settum lengi vel einhverja 3 en það eru þá á hverju ári 7. Ef við tökum tíu ár er það nokkurn veginn talan sem við erum í skuld, sem hefur verið áætluð um 70 milljarðar ef ég vitna til skýrslu t.d. Samtaka iðnaðarins. Ef við höldum áfram á þeirri braut verðum við í alvarlegum málum.

Þess vegna held ég að við verðum að hugsa þetta í lausnum. Ég lít svo á að við séum að horfa á fullfjármagnaða samgönguáætlun og samþykkja hana og séum opin fyrir því að skoða þessar hugmyndir áfram.