149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

matvælaverð.

[10:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina, ég heyrði nú megnið af henni og vel það. Þar kom svo sem ekki margt á óvart. Ég ætla ekki að svara sérstaklega fyrir verðkönnun ASÍ. Ég ætla bara að minna á, af því að hv. þingmaður nefnir hátt verð á íslenskum landbúnaðarafurðum, að það er fleira matur en feitt kjöt, eins og stundum er sagt við hátíðleg tækifæri. Íslendingar flytja inn mjög mikið af matvöru og tollmúrar Íslands eru einfaldlega miklu lægri í þeim efnum en nokkurn tímann Evrópusambandsins, bara svo að það sé nefnt, vegna þess að yfir 80% af innfluttum matvælum til Íslands eru án tolla. Þar undir er fullt af þáttum. Ég tel að í því ljósi standi íslenskur landbúnaður vel. Hann framleiðir góða vöru. Það má svo alltaf deila um á hvaða verði menn kaupa nauðsynjavörur.

Það er alveg hárrétt að í þessari könnun eins og hún birtist okkur er matarkarfan í þeim vörum sem þar eru bornar saman töluvert hærri hér. En þá er örugglega fróðlegt að skoða mismuninn og ég vænti þess að íslenskir framleiðendur þeirra matvæla sem í þeirri körfu voru muni leiða fram mismun í kaupgjaldi fólks og fleiri þætti sem spila inn í verðlagningu á vöru á markaði. Það er eðlilegt að það sé gert í þeim samanburði sem verið er að gera á bæði vörum sem við framleiðum sjálf og vörum sem við flytjum inn í landið þegar reynt er að leggja mat á verðmæti framleiðslunnar, að fleiri þættir séu teknir inn en bara beint útsöluverð úr búð.

Bara svo það sé sagt ætla ég ekki að svara fyrir orð framkvæmdastjóra einstakra verslana eða annað. Þeir verða bara að tala fyrir sig sjálfir. (Forseti hringir.) Það kann vel að vera að þetta séu atriði sem komu upp í tengslum við kjaraviðræður stjórnvalda, sem hv. þingmaður nefndi áðan. Ég veit ekki til þess að þessi mál séu enn komin inn á það borð, svo því sé svarað.