149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[15:23]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um tillögu um markmið um greiðar samgöngur, a-lið; það sem ég segi á raunar við um b-lið líka. Þarna er enn einu sinni verið að reyna að slá ryki í augu þeirra sem fylgjast með umfjöllun um samgönguáætlun, því að þarna er verið að leggja til verkefni sem nú þegar eru í vinnslu og við erum búin að greiða atkvæði um í fimm ára áætluninni. Það er viðamikið samstarf um útfærslu á almenningssamgöngum, bæði á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu, til að móta í þeim nútímaumhverfi og almenningssamgöngur eru niðurgreiddar. Það er liður í útfærslunni að fara yfir það hversu miklar þær eru á hverjum tíma, og eitt af markmiðunum er einmitt að samræma niðurgreiðsluna um land allt.