149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

endurskoðun lögræðislaga.

53. mál
[16:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á því að segja að ég er hjartanlega sammála því að nauðsynlegt sé að endurskoða lögræðislögin. Þó svo að ég sé ekki meðflutningsmaður á þessu þingmáli er ég algerlega sammála anda þess. Líkt og hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni eru rökin með tilliti til mannréttinda fatlaðs fólks að mínu mati borðleggjandi hvað það varðar að endurskoða þurfi þessi lög. Ég hlakka til að fást við þetta mál í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Mig langar við þetta tækifæri að heyra sjónarhorn hv. þingmanns á það að hér er sú leið lögð til að stofna þingnefnd sem sjái um þetta mál. Ég sá á þeirri málsmeðferð ýmsa kosti og fordæmi eru fyrir því að þannig sé farið með mál — við getum nefnt útlendingalögin sem dæmi. En það eru líka ákveðnir hlutir sem við þurfum að vanda okkur sérstaklega við. Við erum ekki sérfræðingar í þessum málum, þó svo að okkur finnist alls konar, og það er líka hættulegt ef við trúum um of á eigin getu. Ég spyr hvort ekki sé mikilvægt að kalla að borðinu sérfræðinga, þá kannski sérstaklega sérfræðinga í málefnum fatlaðs fólks, málefnum fólks (Forseti hringir.) með geðraskanir og þá ekki hvað síst sérfræðinga í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til að þessi vinna verði nú eitthvað gáfuleg.