149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

endurskoðun lögræðislaga.

53. mál
[16:34]
Horfa

Flm. (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek undir með henni að mjög mikilvægt er að fá sérfræðinga að borðinu, sama hvaða leið væri farin í heildarendurskoðun á lögræðislögum. Tekið er fram í tillögutextanum að haft verði samráð við samtök fatlaðs fólks við gerð tillögunnar, en vissulega þurfum við að fá til okkar sérfræðinga á mörgum sviðum til að vinna hana með okkur. Kosturinn sem ég sé við það að þingið taki þetta upp á sína arma er í fyrsta lagi að við erum löggjafarvaldið og höfum alveg umboð til að semja ný heildarlög í málefnum sem eru jafn mikilvæg og þessi, að tryggja öllum jafnan rétt til frelsis, mannvirðingar og sjálfsákvörðunarréttar í heilbrigðisþjónustu.

Ég verð að viðurkenna að mér hefur þótt vanta svolítið upp á hvernig lögin hafa verið meðhöndluð í dómsmálaráðuneytinu, þar sem þau eiga vissulega að mörgu leyti heima, í þeirri endurskoðun sem hefur farið fram á þeim. Ég hef sjálf skoðað lögin mjög mikið. Ég vann fyrir landssamtökin Geðhjálp áður en ég settist á þing og fór mjög rækilega í gegnum lögin og hvernig þau standast þær kröfur sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks setur okkur, sömuleiðis kröfur sem Mannréttindadómstóll Evrópu setur um frelsissviptingar sem finna má í lögræðislögunum.

Ég hef séð hvaða ferli þetta hefur farið í gegnum hjá dómsmálaráðuneytinu og þótt vissulega hafi orðið margar mjög jákvæðar breytingar í því ferli þykir mér vanta svolítið upp á að rödd notenda og rödd fatlaðs fólks heyrist betur í því. Mér finnst þingið vera lýðræðislegi vettvangurinn til að hlusta almennilega á það og mér finnst líka mikilvægt að við tökum öll á þingi ábyrgð á því að við njótum jafnréttis (Forseti hringir.) og að við njótum þess þrátt fyrir fötlun eða geðsjúkdóm eða hvað sem það er að við höfum jafnan rétt fyrir lögum og jafnan rétt til lögformlegs hæfis.