149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[15:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Á nýliðnu viðskiptaþingi sagði hæstv. forsætisráðherra að mikilvægast fyrir leiðtoga væri að hlusta og skilja. Hún talaði um að hið eina fyrirsjáanlega í heiminum í dag væri hið ófyrirsjáanlega en samt taldi hún að með myndun þessarar ríkisstjórnar væri pólitískri óvissu í þessu landi eytt. Þótt ég væri til í að ræða betur við forsætisráðherra um þá pólitísku vissu, um gildi stefnu flokka og hvenær eðlilegt og réttlætanlegt er að víkja frá henni í nafni málamiðlana, ætla ég frekar að einbeita mér að þeirri samfélagslegu óvissu sem við búum við vegna íhalds í íslenskum stjórnmálum.

Almenningur bíður nú eftir því að dragi til tíðinda í yfirstandandi kjaraviðræðum. Leiðtogar launafólks hafa sagt skýrt að lausn verði ekki náð nema þessi ríkisstjórn sýni á spilin. Hæstv. ráðherra hefur aftur á móti sagt að aðkoma stjórnvalda hangi á því að það sjái til lands í kjaraviðræðum. Titringur hefur verið látinn magnast á vinnumarkaði í skugga aðgerðaleysis stjórnvalda. Ábyrg ríkisstjórn hefði strax í upphafi lagt fram breytingar á skattkerfinu og húsnæðismálum í stað þess að nota þau nú sem skiptimynt í kjarasamningum.

Verkalýðshreyfingin hefur lagt fram tillögur um fjölþrepaskattkerfi eins og Samfylkingin og Vinstri græn, lengst af, hafa talað fyrir. Það er skynsamleg leið til jöfnunar og til að auka lífsgæði. Tillögur ASÍ gera ráð fyrir fjórum þrepum þar sem 95% launafólks muni standa betur eða í stað við breytingarnar en fjórða þrepið yrði hátekjuskattur.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig henni lítist á tillögur ASÍ en einnig hversu lengi hún ætli að leyfa titringnum að magnast áður en hún sýnir á spilin. Loks spyr ég hvort hæstv. forsætisráðherra finnist mikilvægara, pólitísk vissa innan ríkisstjórnarinnar eða stöðugleiki og réttlæti á vinnumarkaði.