149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina þótt ég neyðist til þess að leiðrétta margt af því sem kom fram í máli hans. Ég get fullvissað hv. þingmann um að fáar ríkisstjórnir á síðari árum og síðari tímum hafa gripið til jafn mikilla aðgerða og jafn mikils samtals við aðila vinnumarkaðarins. Því getur enginn neitað. Hv. þingmaður getur ekki haldið öðru fram.

Hér hefur þegar verið gripið til ýmissa aðgerða sem ég hef margoft farið yfir með hv. þingmanni, hvort sem þær lúta að stöðu atvinnulausra, breyttu launafyrirkomulagi æðstu embættismanna, aukningu barnabóta eða breytingum á skattkerfi, bæði þeim sem tóku gildi þegar í stað síðustu áramót og þeim sem tóku gildi þegar í stað fyrstu áramótin sem þessi ríkisstjórn sat.

Hv. þingmaður kemur upp og leyfir sér að tala um að ábyrg ríkisstjórn hefði þegar í stað gripið til aðgerða. Við boðuðum aðila vinnumarkaðarins á fund okkar strax í upphafi. Við höfum átt einstaklega gott samtal við þá aðila. En þegar verið er að reyna að ná kjarasamningum til langs tíma skiptir að sjálfsögðu máli — og ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði að ýmsir töluðu skýrt og ég hef einmitt talað mjög skýrt í því — að aðilar sjái til lands til þess að stjórnvöld geti komið inn með raunhæfar aðgerðir sem munu í raun og veru greiða fyrir því að ná farsælli lendingu í kjarasamningum og bæta hag launafólks.

Hv. þingmaður spurði mig sérstaklega um skattkerfisbreytingar. Það er ekkert launungarmál að ríkisstjórnin hefur undirbúið tillögur í skattamálum sem miða að því að bæta hag tekjulægsta fólksins í samfélaginu. Það er gríðarstórt hagsmunamál, gríðarstórt lífskjaramál, eins og þær tillögur sem átakshópur í húsnæðismálum hefur unnið, eins og þær tillögur sem verið er að vinna núna hvað varðar félagsleg undirboð, eins og (Forseti hringir.) það sem þegar hefur verið gert fyrir barnafólk í landinu og eins og það sem þegar hefur verið gert fyrir atvinnulausa. Ég hlýt (Forseti hringir.) að vísa tali um aðgerðaleysi norður í land, hv. þingmaður.