149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

launahækkanir æðstu stjórnenda ríkisfyrirtækja.

[15:12]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. forsætisráðherra snýr að viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við launahækkunum æðstu stjórnenda í ríkisfyrirtækjum og áhrifum þeirra á yfirstandandi kjaraviðræður. Í því samhengi vil ég víkja sérstaklega að einni slíkri hækkun, launahækkun bankastjóra Landsbankans upp á 82%, frá 3,25 millj. kr. á mánuði upp í 3,8 millj. kr., í apríl í fyrra.

Til að byrja með vil ég vekja athygli á orðum sem hæstv. félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason lét falla á opnum fundi á Hellu í síðustu viku. Hann sagði að laun forstjóra ríkisfyrirtækjanna væru rugl og komin úr öllum takti. Hann sagði einnig að stjórnir bankanna yrðu að sýna samfélagslega ábyrgð.

Hæstv. félagsmálaráðherra sagði síðar á Facebook, með leyfi forseta:

„Þessar eilífu hækkanir forstjóra ríkisfyrirtækja eru óþolandi. Ríkisbankinn fremstur í flokki að hækka laun á sama tíma og aðrir eru varaðir við vegna kjarasamninga. Bankasýsla ríkisins og bankaráð Landsbankans verða að sýna það í verki að þeim sé treystandi til að stýra fyrirtækjum í almannaeign. Ef ekki þá verða stjórnvöld að grípa inn í með lagabreytingum. Í hreinskilni sagt þá fer þolinmæði mín þverrandi gagnvart þessu rugli.“ — Ég get tekið undir það hjá hæstv. ráðherra.

Hæstv. forsætisráðherra sagði við sama tilefni, með leyfi forseta:

„Ef það er þannig að stjórn bankans túlkar hóflega og samkeppnishæfa launastefnu með þessum hætti þá þarf kannski bara að setja það nákvæmlega inn í starfskjarastefnu hvernig fara eigi með kjör æðstu stjórnenda.“

Í fyrirspurn minni vil ég biðja hæstv. forsætisráðherra að skýra þau orð sín og mögulega einnig orð hæstv. félags- og barnamálaráðherra. Að mínu viti er morgunljóst að þessar hækkanir setja þetta samfélag á hliðina. Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hvernig hyggst hann beita sér og sinni ríkisstjórn í því að tryggja að þær ákvarðanir, sem eru greinilega þvert á eigandastefnu ríkissjóðs, hafi ekki áhrif á yfirstandandi kjaraviðræður? Hyggst ríkisstjórnin lækka laun þeirra forstjóra og bankastjóra sem mesta hækkun hafa fengið eða er planið að gera ekki neitt fyrr en þjóðfélagið logar í verkföllum og fara svo í lagasetningu gegn þeim?