149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

launahækkanir æðstu stjórnenda ríkisfyrirtækja.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það var ágætt að fá upplestur hennar á ræðu hæstv. félags- og barnamálaráðherra á fundi hans á Hellu. Ég held að hún verði bara að spyrja þann ráðherra sérstaklega um þann fund ef hún vill setja hann á dagskrá Alþingis. Það liggur algjörlega ljóst fyrir hvað ég hef sagt um þessi mál. Þegar Bankasýsla ríkisins var stofnuð á sínum tíma, vegna þess að ríkið var orðið eigandi banka, var lögð á það mikil áhersla af Alþingi að ekki væru bein pólitísk afskipti af þessum ríkisbönkum. Þess vegna var Bankasýslan sett á laggirnar, til að tryggja ákveðna fjarlægð hins pólitíska valds frá bönkunum.

Nú getum við deilt um það hvort okkur finnst það skynsamlegt yfir höfuð að ríkið sé að reka banka og hversu mikil fjarlægð hins pólitíska valds á að vera frá þeim bönkum. Í því felst að launakjör eru ákvörðuð með sérstakri eigenda- og starfskjarastefnu og þar kemur fram eins og hv. þingmaður nefndi — eða kannski var hv. þingmaður að vísa í það sem ég sagði um þessi mál, það kann að vera — að launin skuli vera hófleg og samkeppnishæf. Fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Benedikt Jóhannesson, sendi tilmæli árið 2017 til bankaráða þar sem hann ítrekaði þessa starfskjarastefnu og þau tilmæli eru enn í fullu gildi.

Það sem ég hef sagt er mjög einfalt: 4 millj. kr. laun eru ekki hófleg í neinum þeim veruleika sem við þekkjum. Þau geta ekki talist hófleg í neinum þeim veruleika sem við búum við og 82% launahækkun á einu ári getur aldrei talist hófleg. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Samkeppnishæf laun — þurfum við þá ekki að spyrja hið pólitíska vald: Hvað eigum við við þegar við tölum um samkeppnishæf laun? Eru það samkeppnishæf laun sé maður bankastjóri í ríkisbanka að vera með helmingi hærri laun en hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með yfirstjórn þessara sömu ríkisbanka? Eru það samkeppnishæf laun? Mér finnst það ekki, ekki samkvæmt mínum skilningi á orðinu samkeppnishæfur og tel ég mig hafa ágætismálskilning. (Forseti hringir.) Það sem ég átti við, af því að hv. þingmaður spyr, er að þá þarf kannski að skrifa þessa starfskjarastefnu út þannig að hún sé hverjum sem er fullkomlega ljós, að við ætlumst til þess að þarna sé þessum tilmælum fylgt eftir í raun. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)