149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

samstarf við utanríkismálanefnd um öryggismál.

[15:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Um helgina kom utanríkisráðherra Bandaríkjanna til Íslands og ljóst er að verið er að stefna að viðskiptasamningum við Íslendinga, en samkvæmt yfirlýsingum Pompeos og bandaríska utanríkisráðuneytisins er líka sagt að Ísland verði ekki vanrækt lengur af þeirra hálfu. Það þýðir að mínu mati á íslensku að Bandaríkjamenn leggja aukna áherslu þegar kemur að varnar- og öryggismálum á svæðinu.

En hvað þýðir það fyrir okkur?

Ég er eindreginn talsmaður vestrænnar samvinnu en það þýðir auðvitað ekki að við getum ekki leyft okkur að gagnrýna bandalagsþjóðir okkar, hvort sem þær eru vestan hafs eða austan. Samkvæmt þjóðaröryggisstefnu okkar er blessunarlega lögð áhersla á vestrænt varnarsamstarf og NATO. Við eigum að tryggja að fylgja því eftir að vera með okkar helstu bandalagsþjóðum þegar kemur að því að stuðla að samstarfi og samvinnu, hvort sem það eru norðurslóðir eða annars staðar. En það þarf heildstæða stefnu í þessu sem öðru og við hljótum alltaf að spyrja okkur hvernig við tryggjum öryggi okkar Íslendinga best. Við getum ekki tryggt varnir okkar án þess að við fókuserum í leiðinni á lýðræði og mannréttindi, því að án þeirra lykilþátta er frelsinu ógnað og þá er örygginu líka ógnað.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra, af því að þetta eru risamál, bæði viðskiptasamningar við Bandaríkin og ekki síður það hvernig auka á öryggis- og varnarmál á norðurslóðum með tilkomu þá meiri umsvifa Bandaríkjanna: Getur hæstv. forsætisráðherra verið mér sammála um að utanríkismálanefnd þingsins verði ekki bara upplýst um þetta, hugsanlega bara með einu símtali, heldur líka upplýst markvisst af hálfu utanríkisráðuneytisins? Og ekki bara það: Mun ráðherra styðja og beita sér fyrir því að samráð verði haft við utanríkismálanefnd og reynt að ná samstöðu um helstu samningsmarkmið Íslands í þessum mikilvægu verkefnum sem fram undan eru í samskiptum okkar við Bandaríkin?