149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

valkvæður viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

367. mál
[17:02]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Þetta er stórmerkilegur málflutningur hjá ráðherra. Við erum með einn fulltrúa í barnaverndarnefnd Sameinuðu þjóðanna sem er sambærilegt dæmi, það er ein af þessum mörgu nefndum Sameinuðu þjóðanna sem verja mannréttindi hér og þar. Er sá fulltrúi eins vanhæfur og allir hinir í þeim nefndum sem hæstv. ráðherra minnist á? Ég held ekki og held að það sé erfitt að nota þennan málflutning til að rökstyðja það að við eigum ekki að fara í þá vegferð sem þarna er kveðið á um.

Ráðherra minntist líka á að þingsályktunin væri einhvers konar skiptimynt í þinglokastarfi sem mér finnst gríðarlega áhugavert að heyra. Er það ekki svo að þingmenn eru að fara að sinni sannfæringu þegar þeir ýta á atkvæðagreiðslutakkann? Hvers eiga þeir að vænta, ef vilji Alþingis kemur fram í sameiginlegum atkvæðum þingmanna, að hann gufi upp af því að það eru nýjar kosningar? Það virkar ekki þannig. Ef ráðherra ætlar ekki að fylgja gildandi þingsályktun verður einfaldlega að koma fram með nýja til að fella hana niður.