149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

valkvæður viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

367. mál
[17:07]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég taldi rétt að halda til haga eðli þingsályktunartillagna almennt. Það er auðvitað þannig að þær fá ekki sömu umræðu hér og lagafrumvörp. Þær eru ekki kostnaðarmetnar með sama hætti. Þetta tiltekna atriði, sem var á sínum tíma bætt í klukkutíma fyrir atkvæðagreiðslu, hefur ekki verið kostnaðarmetið. Það hefur ekki verið skoðað. Það var í raun ekki skoðað með nokkrum einasta hætti hvernig að þessum málum er staðið í þessari nefnd.

Ég vil nefna það, og það skiptir máli, að einstaklingar hér á landi sem telja á sér brotið hafa nú þegar fjölda raunhæfra úrræða. Þeir geta kært ákvarðanir stjórnvalda með von um hagstæðari úrskurð eða stefnt máli sínu til dóms. Slík niðurstaða er aðfararhæf. Það hefur raunhæfa merkingu. Ef niðurstaða innlendra dómstóla er kæranda ekki skapi er hægt að vísa til Mannréttindadómstóls Evrópu og Íslendingar hafa ekki dregið af sér í því. En sá dómstóll getur einnig kveðið upp úrskurði sem hafa þýðingu fyrir þann sem í hlut á. Þær reglur sem gilda um slík mál eru í flestum tilvikum þær hagstæðustu sem völ er á og hinar alþjóðlegu bókanir og samningar sem hér um ræðir, ekki bara þessi valfrjálsa bókun, það eru fleiri valfrjálsar bókanir sem menn hafa nefnt í þessu sambandi, bæta sjaldnast nokkrum réttindum við stöðu einstaklingsins. Engu að síður eru margir sem líta slíka samninga vonaraugum. Ég skil það, ég skil það alveg, en það getur verið villuljós.

Mér finnst mikilvægt að halda því til haga því að ég hef talað við fatlað fólk og ég hef talað við hagsmunasamtök fatlaðra sem telja að þetta hafi einhverja raunhæfa þýðingu. Það kemur meira að segja skýrt fram í þingsályktunartillögunni að þetta sé ekki bindandi álit. Og hvaða þýðingu hefur það fyrir fólk að reka mál fyrir þessari nefnd fremur en að gera það hér eða fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu? Það er ábyrgðarhluti að skapa og búa til væntingar sem ekki standast skoðun. Þannig að þetta skiptir máli.

Ég vil líka nefna það varðandi lögfestingu samnings fatlaðs fólks að við höfum fullgilt hann. (Forseti hringir.) Það væri ánægjulegt að geta lögfest hann. Það gerum við ekki fyrr en við getum staðið við það og af nógu er að taka þar. Ég tel mjög brýnt að þingheimur sameinist um að geta staðið við skuldbindingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yfir höfuð áður en farið er í valfrjálsar bókanir þar að lútandi.