149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

rafræn stjórnsýsla við afgreiðslu dvalarleyfa.

375. mál
[17:40]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Já, ég fór hringinn í kringum landið um daginn, ég veit ekki hvort þið tókuð eftir því. Þá ræddi ég einmitt við sýslumannsembættin á ýmsum stöðum, þar sem bent var á þetta. Þeim er falið, sem handhafar framkvæmdarvaldsins í héraði, að taka að sér ýmis verkefni og á sumum stöðum er t.d. tekið við umsóknum um endurnýjun dvalarleyfa. Bent var á tækifæri til að fullvinna eða klára afgreiðslu þessara mála í héraði í stað þess að senda það allt, jafnvel þótt það sé rafrænt, til Útlendingastofnunar. Það eru gríðarleg tækifæri hvað þetta varðar, af því að menn eru að tala um störf án staðsetningar. Það sem skiptir þó mestu máli að hafa að leiðarljósi er þjónustan við þann sem er að sækja um.

Ég vil líka halda því til haga, af því að þetta er ekki eitthvað sem menn fara út í með annarri hendinni, að við verðum líka að hafa í huga að umsóknum um dvalar- og atvinnuleyfi þurfa að fylgja gögn sem tvímælalaust teljast viðkvæmar persónuupplýsingar. Sá sem sendir slík gögn frá sér þarf að vera í stakk búinn til að senda þau rafrænt. Og kerfi móttakandans, Útlendingastofnunar í þessu tilviki, þurfa auðvitað að vera þannig að tryggt sé að farið sé með persónuupplýsingar sem berast rafrænt sem viðkvæmar persónuupplýsingar. Tölvukerfin þurfa að vera sérstaklega hönnuð og kannski töluvert flóknari en tölvupóstssamskipti krefjast.

Hér var sérstaklega spurt um fjárhæðir. Ég nefndi fjármat eða þörfina fyrir auknar fjárheimildir hjá Útlendingastofnun, 94 milljónir í þarfagreiningu og endurnýjun búnaðar, svo að því sé haldið til haga. Ég býst við að það sé að mestu ætlað í endurnýjun búnaðar.

Ég þakka fyrir gagnlegar og góðar umræður um þetta mál. Ég held að við horfum til aukinnar (Forseti hringir.) rafrænnar stjórnsýslu hjá Útlendingastofnun í framtíðinni.