149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

skýrsla um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

551. mál
[18:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Þetta er skemmtilega áhugavert hvernig það virðist skiptast í tvennt hvað kemur til þingsins og hvað kemur ekki til þingsins, þar sem Alþingi biður um ákveðna vinnu sem er ekki kláruð á meðan unnin er sambærileg vinna en samt ekki skilað til þingsins. Væri kannski eðlilegt að eitthvert form væri á slíkri vinnu sem skýrslubeiðni er í rauninni að grunni til, væri komið með hana sem munnlega skýrslu til þingsins? Af því að það var nú einu sinni þingið sem bað um slíka skýrslubeiðni. Allt í lagi að hún sé viðfangsmeiri og því um líkt. En viðfangsefni fyrirspurnarinnar hjá mér er af hverju þingið fær ekki sína skýrslu og af hverju henni er vissulega ekki svarað innan lögbundins frests, t.d. út af því hversu umfangsmikil hún er.

Ég tel svona almennt séð, bæði varðandi skýrslubeiðnir og fyrirspurnir, að sá tímarammi sem er gefinn — þetta er svona áhugamál hjá mér varðandi sérstaklega skriflegar fyrirspurnir, tíminn sem er gefinn endurspeglar alls ekki raunveruleikann. Gefnir eru 15 dagar til að skila skriflegri fyrirspurn, en að jafnaði er verið að skila þeim eftir rúman mánuð eða 32 daga, eða meira en mánuð, litið á virka daga.

Ég held að áhugavert væri ef hluti af því að skila inn bæði skriflegri fyrirspurn og skýrslubeiðni væri eitthvert mat á umfangi verkefnisins sem gæti gefið alla vega þingmönnum smá hugmynd um það, þegar verið er að samþykkja skýrslubeiðnir, hvað það þýðir. Til dæmis var samþykkt skýrslubeiðni um stöðu Íslands gagnvart EES, sem kostaði um 9 milljónir eða eitthvað því um líkt. Hver veit hvort afstaða þingmanna (Forseti hringir.) hefði verið öðruvísi ef við hefðum vitað umfangið.