149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Launakjör bankastjóra ríkisbankanna hafa verið mjög til umræðu hér á undanförnum dögum. Það væri óskandi að það væri stærsta vandamálið þegar kemur að innlenda bankakerfinu okkar. Á síðasta ári, þegar rýnt er í sundurliðuð uppgjör bankanna þriggja, greiddu einstaklingar 15 milljarða kr. í þóknanir til bankanna og hafa hækkað talsvert milli ára. Þessu til viðbótar má nefna að við greiðum um 5–6 milljarða kr. á ári í gengismun af erlendri kortaveltu okkar þar sem kortafyrirtækin taka 3–5% álag ofan á skráð gengi Seðlabankans hverju sinni vegna innkaupa okkar sem eiga sér stað erlendis.

Á sama tíma og rætt er hér fjálglega um tækifæri sem fylgja aukinni samkeppni vegna fjártækni höfum við ekki, eða innlenda bankakerfið, tekið þátt í „Single Euro Payments Area“, þ.e. að gjaldtaka, þóknanir, vegna millifærslna milli banka innan Evrópska efnahagssvæðisins sé eins og ef um innlendar millifærslur væri að ræða. Þetta er auðvitað verulegur þrándur í götu erlendrar samkeppni.

Allt ber þetta að sama brunni, herra forseti. Það er engin samkeppni á innlendum fjármálamarkaði. Ábyrgðin á því samkeppnisleysi liggur auðvitað að stórum hluta hjá eiganda stærsta hluta þess, þ.e. ríkinu sjálfu. Það er enginn þrýstingur af hálfu eigandans á að hér sé virk samkeppni á fjármálamarkaði. Fjármálakerfi sem er ekki samkeppnishæft á alþjóðavísu er byrði á því samfélagi sem það starfar í. Þetta fjármálakerfi er ósamkeppnishæft og allt of dýrt. Það er byrði á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem ekki eiga kost á annarri fjármögnun. Það er byrði á íslenskum heimilum sem þurfa að rísa undir háum þóknanakröfum bankanna og háum fjármagnskostnaði. Það er orðið löngu tímabært að á þessu (Forseti hringir.) sé tekið, svo ekki sé nefnt það sem mestu máli skiptir í þessu sem er auðvitað kostnaðurinn sem af gjaldmiðlinum hlýst og verndin sem gjaldmiðillinn (Forseti hringir.) skapar þessu innlenda fjármálakerfi til þess að starfa án nokkurrar samkeppni.