149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Fyrir jól var kynntur til leiks viðskiptahraðallinn „Til sjávar og sveita“. Tilgangurinn er að styðja við nýsköpun í landbúnaði og sjávarútvegi, með áherslu á sjálfbærni. Verkefnið er ákaflega gott og mikilvægt fyrir okkur sem samfélag sem byggjum okkar lífskjör að miklu leyti á því að nýta auðlindir til sjós og lands. Nú á tímum sívaxandi sjálfvirknivæðingar í bæði landbúnaði og sjávarútvegi er mikilvægt að leggja grunn að verðmætasköpun framtíðarinnar, að nýsköpun, hugviti og sköpunargleði.

Lykilatriði er að slík vinna fari fram á forsendum sjálfbærni. Við þurfum grænan hagvöxt og fátt er hollara en heimafenginn baggi. Að hraðlinum kemur Icelandic Startups í samstarfi við Íslenska sjávarklasann ásamt IKEA, Matarauði Íslands, HB Granda og landbúnaðarklasanum. Þetta er því samvinnuverkefni einkaaðila og ríkisins.

Mér barst til eyrna kynning á verkefninu sem haldin var fyrir austan. Mér skilst að það hafi þurft allnokkurt átak til þess að fá yfir höfuð kynningu á verkefninu á Austurlandi sem er furðu líkast á tímum þegar við tölum um jafnan rétt borgaranna, óháð búsetu. Eins og oft áður var þar aðallega spurt um ferðakostnað, enda miklar vegalengdir. Á daginn kom að þrátt fyrir að ekkert kosti að taka þátt í verkefninu fyrir frumkvöðla er ekkert fjármagn eyrnamerkt ferðakostnaði. Fyrir þá hugmyndaríku frumkvöðla sem búa á Austurlandi þarf að hósta upp a.m.k. hálfri milljón í ferðakostnað í þær átta vikur sem hraðallinn tekur. Það þykir mér vera óþarflega há aðgangshindrun fyrir landshluta sem sárlega þarfnast aukinnar nýsköpunar og aukinna fjárfestinga í nýsköpun.

Nýlega er komið út hjá Byggðastofnun yfirlit yfir hagvöxt áranna 2008–2016, sundurgreint á landshluta. Þar kemur í ljós að Austurland hefur setið eftir í uppgangi síðustu ára. Þar er hagvöxtur neikvæður um 1%, þ.e. eftir að álversuppbyggingunni lauk hefur framleiðslan farið minnkandi í landshlutanum öllum meðan landið allt hefur vaxið um tíu af hundraði. Þar kemur inn mikilvægi verkefna eins og þessara og við getum ekki látið hjá líða að gera enn betur í þessum málum þannig að störf framtíðarinnar verði til úti um allt land.